144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:32]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég tek undir það sem hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir var að segja. Ég var til dæmis hér í dag klár með fyrirspurn til félags- og húsnæðismálaráðherra en ég komst ekki að. Það er það sem við stöndum frammi fyrir, það eru margir flokkar á þingi og þeir eiga allir sinn rétt á að komast að. Þegar fyrsta umferð er búin er það spurning hvort pláss er fyrir meira. Þetta er ekki nema hálftími.

Ég tek líka undir að oft fást mjög ófullnægjandi svör og ráðherra endar auðvitað á því að svara og þá gefst ekki færi til að eiga meiri samræður. Meiri hlutinn hefur sjálfur gagnrýnt hvernig fyrir þessu er komið, þ.e. hversu lengi málin voru að berast inn í þingið. Eins og kom fram er ekki við okkur sem erum að ræða fjárlagafrumvarpið að sakast hvernig staðan er núna. Við skulum ekki gleyma öðrum umræðum, ég held að 2. umr. hafi einhvern tímann staðið í níu daga og það var hjá síðustu ríkisstjórn. Þá þótti núverandi stjórnarmeirihluta (Forseti hringir.) allt í lagi að tala í níu daga. Ég hef líka sagt að mér finnist að við eigum að tala sem mest um fjárlögin. Ég hefði viljað sjá nefndarfólk taka meiri þátt um sinn málaflokk.