148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[15:31]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég minntist aðeins á þessi flóknu atriði í ræðu minni sem snúa að forsjá og svo eitthvað sem eru réttindi í lögum. Hvað felst í því að foreldri hefur forsjá yfir barni? Hverju ræður það yfir? Hver eru áhrif þess? Þau hljóta að vera mikil. Þess vegna tók ég dæmi: Hvað ef það verða hér einhverjir árekstrar hvað þetta varðar milli barns og foreldris? Hvernig endar það?

Þess vegna segi ég: Það er miklu eðlilegra og heilbrigðara að lækka þá bara lögræðisaldurinn. Förum í þá vinnu. Er það þannig að við ætlum í raun að treysta 16 og 17 ára unglingum til að taka ábyrgð og taka afstöðu sem skiptir þau máli? Ætlum við í raun að treysta þeim eða ætlum við bara að treysta þeim fyrir einhverju sérstöku sem við teljum að henti okkur? Það er auðvitað kjarni málsins. Við eru alltaf að því. Í staðinn fyrir að bara segja: Skoðum það hvenær á fólk að vera börn og hvenær er það orðið fullorðið? Við höfum tekið afstöðu til þess, það eru 18 ár. En svo ætlum við einhvern veginn að breyta því í þessu tilviki sem mun auðvitað bara rugla kerfið, af því að við erum svo miklir kerfiskarlar, Sjálfstæðismenn. Það ruglar kerfið. En það er ekki gott að rugla kerfið, það er ekki gott ef kerfið er í rugli. Það kemur okkur öllum illa. Þess vegna er mikilvægt að fara þannig í þetta mál að við skoðum það í heild sinni. Erum við virkilega tilbúnir að treysta 16 og 17 ára eða ekki?