148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:52]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp sem felur í sér að veita 16 og 17 ára ungmennum rétt til að kjósa sér fulltrúa í sveitarstjórnir. Frumvarpið kom fram fyrir þremur mánuðum, í desember. Nú eru réttar níu vikur til sveitarstjórnarkosninga. Ég tel einfaldlega að of skammur tími sé til stefnu. Ég tel skynsamlegast eins og nú er komið að gildistöku breytinganna verði frestað og myndi gildistaka miðast við næstu áramót. Ef það er ekki uppi á borðinu mun ég greiða atkvæði gegn frumvarpinu.

Þegar fulltrúar dómsmálaráðuneytisins komu fyrir nefndina í febrúar voru þeir spurðir hvort þessi skammi tími sem þá var myndi valda vandræðum. Svarið var að þetta væri framkvæmanlegt þótt erfitt væri. Síðan eru liðnar fimm vikur, frá því að ráðuneytisfólk taldi þetta að vísu framkvæmanlegt en það gæti orðið torsótt að gera þetta það vel að sómi væri að. Nú hefur ráðuneytið svarað nefndinni að nýju um framkvæmd kosninganna og segir ráðuneytisfólk að það geti brugðist við breytingum þar, það hefði getað brugðist við breytingum þarna um miðjan febrúar með kynningum þrátt fyrir að tími til kosninga hafi þá, að sögn ráðuneytismanna, verið mjög skammur og hætta hafi verið á að ekki yrði nægilega vel staðið að undirbúningi þessara breytinga. Síðan eru liðnar fimm vikur.

Áhyggjur ráðuneytisins núna eru af tvennum toga. Í fyrsta lagi framkvæmdarlegs eðlis, og þar er rætt um að framkvæmdinni yrði teflt í tvísýnu. Í öðru lagi telur það hættu á að kynning fari forgörðum. Þar hef ég verulegar áhyggjur, að umræddur hópur mæti hreinlega ekki nema í litlum mæli á kjörstað. Til hvers er þá unnið? Kynningin verður erfið þrátt fyrir yfirlýsingar sumra um annað. Það er ekki það sama og að bera þetta saman við 18 ára aðila núna sem hafa vitað af því lengi að nú fái hann kosningarrétt sem margir hafa beðið spenntir eftir, þeim tímamótum í lífi sínu.

Þegar ég tala um kynningu verða menn að gera sér grein fyrir að nú er rétt vika þar til utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst. Ein vika. Framkvæmd hennar er ekki bara uppi í Perlu eða Smáralind. Framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu á sér stað um allt land, hjá sýslumönnum og í sendiráðum erlendis og hjá kjörræðismönnum víða um lönd. Það er vika í það.

Ef 16 og 17 ára ungmenni mæta illa á kjörstað vegna ónógrar kynningar á þessum nýja rétti þeirra gæti það orðið til þess að kosningarrétturinn fari einfaldlega fram hjá þeim. Þau séu og verði einfaldlega ekki meðvituð um kosningarrétt sinn. Á hvaða stað verðum við þá að kosningum loknum? Á hvaða stað verðum við ef sú sviðsmynd yrði uppi að verulega minni kjörsókn meðal þessa aldurshóps yrði? Að þessi tilraun hefði mistekist hrapallega. Það yrði niðurstaðan. Er það það sem við viljum? Að það standi eftir að loknum þeim kosningum, herra forseti?

Síðan að framkvæmdinni. Framkvæmd sveitarstjórnarkosninga er í höndum 74 kjörstjórna um allt land. Kannski 73 núna eftir að sveitarfélögin Sandgerði og Garður voru sameinuð. Ráðuneytið telur hættu á mistökum vera mun meiri þar sem breytingin sé gerð með svo skömmum fyrirvara. Ég get tekið undir þetta sjónarmið þrátt fyrir að ég viti mætavel hversu öflugt og gott fólk starfar í kjörstjórnum um allt land. Utankjörfundarstjórar, nú er ég að tala um utankjörfundaratkvæðagreiðsluna sem byrjar eftir viku, og kjörstjórnir svo síðar, geta fengið til sín alls kyns álitaefni af þessu tilefni eins og ég hef bent á. Til dæmis vil ég nefna aðstoð við kjósanda sem einhverra hluta vegna getur ekki kosið sjálfur vegna þess að honum er höndin ónothæf eða sér ekki til við kosninguna. Kjósandinn getur þannig bent á hvern hann vilji láta aðstoða sig, bæði úr kjörstjórninni og einnig getur hann haft aðstoðarmann með sér og valið hann sjálfur. Sjá menn það fyrir sér að 16 ára ungmenni taki pabba sinn með sér og vilji aðstoð hans? Taka ber með í reikninginn að líklega er faðirinn forráðamaður kjósandans. Það yrði skemmtilegt úrlausnarefni ef upp kæmi einhver ágreiningur þar.

Það þarf að ráða fram úr þessu. Það þarf að gefa svör, gefa 74 kjörstjórnum svör og öllum þessum sendiráðum og kjörræðismönnum svör við því hvernig á að leysa úr alls kyns ágreiningsefnum sem koma upp. Ég nefni það sem mér dettur í hug rétt núna.

Hér má einnig nefna afsal kosningarréttar samkvæmt 56. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna. Hvernig fer með álitaefni hvað það varðar? Það þarf að búa kjörstjórnir rækilega undir það ef ólögráða ungmenni ætla sér að nýta þessi úrræði kosningalaganna. En afsal kosningarréttar felur í sér að viðkomandi ólögráða ungmenni þarf að afsala sér að lögum kosningarrétti í einni kjördeild og kjósa í einhverri annarri, og hann er ólögráða. Kannski er þetta einfalt mál, en leysa þarf úr þessu, gefa 74 kjörstjórnum, sendiráðum, kjörræðismönnum, utankjörfundarkjörstjórum svör við slíkum ágreiningsefnum sem gætu komið upp. Ég hef kannski ekki svör við þessu, en það þarf að leysa úr þessu fyrir fram. Það er vika til stefnu.

Þá er vert að benda á að samkvæmt ráðleggingum Evrópuráðsins á ekki að breyta kosningalögum á síðasta ári fyrir kosningar. Hér erum við ekki að tala um einhverja breytingu á kosningalöggjöf, við erum að tala um grundvallarbreytingu sem varðar kosningaaldur. Allt ber þetta að sama brunni. Framkvæmdaraðilar og ráðgjafar ráðleggja okkur að bíða með þessa breytingu og taka hana fremur upp með meiri og lengri fyrirvara. Eigum við að hlusta á ráðgjafana? Nei, auðvitað ekki. Nei, nei, nei. Bara þegar það hentar, en ekki núna, nei. Ekki núna. Einhvern tíma síðar.

Mikill tími hefur farið í þetta mál í þinginu. Það leiðir hugann að því sem ég vakti máls á hér í morgun sem er vandi ungra drengja, þar sem ég byrjaði á að tala um strákana okkar, en beindi þó sjónum að öðrum strákum, talaði um aðra stráka, ekki fótbolta- eða handboltastrákana sem standa sig svo vel, heldur hina, aðra stráka. Strákana sem eru í vanda. Þeir eru svo sannarlega margir. Þar kallaði ég eftir aðgerðum í þeirra þágu. Allar tölur æpa á okkur að drengir eigi í miklum erfiðleikum á fjölmörgum sviðum, allt frá því að skólaganga þeirra hefst. Þeir eru settir á hegðunarlyf, yfir 12% drengja á aldrinum fimm til níu ára eru á slíkum lyfjum á Íslandi. Þriðjungur drengja kemur ólæs út úr grunnskólanum og nú eiga þeir að fara fyrst að kjósa. En hvenær eiga þeir að fá stuðninginn sem þeir þurfa svo sárlega á að halda? Þessir strákar finna sig ekki. Eftir grunnskólann tekur við alls kyns vandi. Áhættuhegðun, iðjuleysi, afbrot, vímuefni, þunglyndi, atvinnuleysi og alls kyns óhamingja. Nei, tölum frekar um kosningarrétt dögum saman. Við tölum ekki um vanda þessara pilta á meðan. Fleiri ungir menn falla fyrir eigin hendi en ungar konur og er sjálfsmorðstíðni ungra manna verulegt áhyggjuefni og falla hlutfallslega fleiri ungir menn hér fyrir eigin hendi en annars staðar á Norðurlöndunum. Hvað segir þetta okkur? Þarna er vandi og við erum ekki að ræða hann meðan við erum að tala um þetta mál. Tölum frekar um kosningarrétt 16 ára og ræðum ekki um vanda þessara pilta.

Það sem ég er að kalla eftir er að þvert gegn ráðleggingum sérfræðinga og ráðgjafa, þvert gegn ráðleggingum þeirra sem segja að of skammur tími sé til undirbúnings, hætta á mistökum, hnökrar í framkvæmd — nei, tölum um eitthvað annað, ekki eyða tímanum í þetta. Það er búið að ráðleggja okkur að hafa lengri fyrirvara á þeirri breytingu sem hér er til umræðu. Ég segi: Tölum um eitthvað sem skiptir meira máli núna og hlustum á ráðgjafana og sérfræðingana.