148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:48]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ábending hv. þm. Bergþórs Ólasonar er auðvitað kórrétt. Því miður verð ég að hryggja þingmanninn með því að segja nei, ég þekki ekki nein slík dæmi. Það eru ekki bara ábendingar frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi þetta. Umboðsmaður barna varar við og biður okkur aðeins að hægja á okkur. Það er ekki bara dómsmálaráðuneytið, Evrópuráðið varar sérstaklega við því að verið sé að gera breytingar á kosningalögum innan við ári áður en kosningar eru haldnar. Það er einhver ástæða fyrir því, vegna þess að menn hafa slæma reynslu af því yfirleitt að löggjafinn sé að krukka í kosningalög þegar innan við ár er til kjördags.

Ég segi hins vegar að það gefi auðvitað ákveðið fordæmi. Það mun gefa ákveðið fordæmi ef meiri hluti þingheims ætlar t.d. að henda alveg út beiðni og frómum óskum hagsmunasamtaka, í þessu tilfelli stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem eru auðvitað þverpólitísk samtök sem hafa miklar áhyggjur af því sem verið er að gera í dag. Þarna er verið að gefa fordæmi. Ég veit ekki hvert það fordæmi leiðir okkur. Ég hef áhyggjur af því.

Ég hygg að við hv. þingmaður, ég og Bergþór Ólason, séum sammála þegar kemur að þessu, þ.e. við deilum áhyggjum af því fordæmi sem verið er að gefa. Auðvitað þurfum við stundum að taka ákvarðanir sem ekki öllum líkar við, en við (Forseti hringir.) reynum þó a.m.k. að tryggja að samtalið geti átt sér stað áður en það gerist.