150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

ræktun iðnaðarhamps.

[10:35]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þetta svar. Það er gott að fá það á hreint að ráðherra hafi áhuga á þessu máli, ætli að taka þennan bolta og fara með hann áfram. Það er líka gott að heyra að það sé alveg greinilegt og skýrt hvert vandamálið er, vandamálið er að plantan öll fellur undir lög um ávana- og fíkniefni. Því þarf að breyta. Það er furðulegt að við þurfum virkilega að lúta því að lög og reglugerðir sem ranglega flokka vörur sem vímuefni séu rétthærri en almenn skynsemi. Það er mikilvægt að við leiðréttum þetta sem allra fyrst og sérstaklega í ljósi þess að ég hef fengið þær upplýsingar frá aðilum sem hafa flutt inn hampfræ að nú sé það bara með öllu óleyfilegt, að fólk geti ekki lengur flutt inn þessi fræ, Lyfjastofnun sé búin að stoppa það og taka fram fyrir hendurnar á Matvælastofnun. Þetta eru upplýsingarnar sem ég hef (Forseti hringir.) og mér finnst miður að umræðan sem ég átti við hæstv. ráðherra í pontu Alþingis í október hafi haft þær afleiðingar að nú sé orðið með öllu ófært fyrir fólk að halda áfram tilraunastarfsemi með hampræktun á Íslandi.