150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[11:31]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni kærlega fyrir. Það er alveg hægt að halda því fram að þessi samningur snúist um krónur og aura. Ég veit ekki hvort það er aðalatriðið hvernig við förum með önnur sóknargjöld ef út í það er farið. Hv. þingmaður nefndi að 80% sóknargjalda renna til kirkjunnar. Ég veit að ég á ekki að spyrja hér spurninga en mig langar samt að velta upp: Af hverju bara 80%? Af hverju ekki bara 100% til kirkjunnar? Þá mun hv. þingmaður velta fyrir sér, ef ég skil hann rétt: Af hverju er það tengt launavísitölunni meðan svo er ekki hjá öðrum trú- eða lífsskoðunarfélögum? Þarf að búa til samræmi þar á milli? Það getur vel verið að það þurfi. En í mínum huga fæst þetta frumvarp við fyrstu skrefin í því að við skerpum á því hvernig við viljum hafa þjóðkirkjuna í þessu landi. Síðan getur vel verið að önnur lífsskoðunarfélög fylgi í kjölfarið, þannig meint að þau verði undir sömu forsendum og þjóðkirkjan. Það getur vel verið að við þróum okkur þangað. En ég vil ekki líta svo á að það sem við erum að gera í dag útiloki eitthvað annað.