150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[13:46]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Eftir þessa ágætu umræðu er ég er búinn að átta mig vel á efni þessa máls og get sagt að þrátt fyrir að það séu nokkur atriði sem ég held að þurfi að gá betur að í meðförum nefndarinnar held ég að ég muni geta stutt málið. Samt liggja enn þá eftir spurningar sem ég bar upp í fyrri ræðu minni sem ég vildi bara taka stuttan tíma til að rifja upp vegna þess að ég hef ekki enn þá fengið svör við þeim frá hæstv. dómsmálaráðherra, fyrir utan að það hefur einhverra hluta vegna ekki náðst að svara þessum spurningum í 22 ár frá því að kirkjujarðasamkomulagið var gert. Núna er tíminn til að fá endanlegt svar við þeim.

Spurningarnar eru: Hvaða jarðir voru það sem féllu undir kirkjujarðasamkomulagið? Hversu mikils virði voru þær jarðir á þeim tíma sem samningurinn var gerður? Hvað hefur verið greitt fyrir þær jarðir enn sem komið er? Og síðan kannski pólitíska spurningin: Hvenær mun ríkisstjórn Íslands líta svo á að það sé búið að greiða fyrir þessar jarðir? Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að það sé gert?

Þetta eru einfaldar spurningar en einhverra hluta vegna hefur staðið á svörum. Það er búið að spyrja margoft, þráspyrja um það hvaða jarðir voru undir. Ég veit að það tengist ekki beint efni frumvarpsins en þegar við erum að slíta á milli þjóðkirkjunnar og ríkisins með þeim hætti sem er verið að gera núna í smáum skrefum er orðið tímabært að þetta liggi endanlega fyrir.