150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[13:59]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir tiltölulega greinargóð svör og útskýringar á þessum Indlandsvinkli. Ég hefði kannski átt að nýta tíma minn örlítið betur áðan. Ég áttaði mig á því, þegar ég gekk úr pontu, að ég var enn á grænu og hefði hugsanlega komið að annarri spurningu sem mig langaði að spyrja hv. þingmann líka. Nú hefur mikið verið rætt um þetta svokallaða endurgjald fyrir kirkjueignir, hvað sé hæfilegt og eðlilegt endurgjald. Hér hefur farið fram vaxtaumræða í kjölfarið og hvaðeina. En það sem ég er kannski mest forvitinn um — svona í ljósi þess að ég heyri að þingmaðurinn er fróðleiksfús um mál er varða öll trúarbrögð og öll siðaskipti og yfirfærslu eigna og hvað þetta heitir allt saman, áhuginn virðist alls staðar vera jafnmikill — er þá bara þetta: Hvað telur hv. þingmaður að sé hæfilegt endurgjald fyrir þessar eignir?