150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2019 er lagt var fram og mælt fyrir af hæstv. fjármálaráðherra. Í nefndaráliti okkar kemur fram hverjir komu fyrir nefndina og kynntu efni frumvarpsins og ræddu það. Ég rek það ekki nánar en vísa til útgefins nefndarálits í þeim efnum.

Ég vil grípa niður í það sem við ræðum um lög um opinber fjármál og fjáraukalög þar sem segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið er byggt á 26. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál. Þar kemur fram að ráðherra er heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með öðrum úrræðum sem tilgreind eru í lögunum.

Í fylgiriti með frumvarpi til fjáraukalaga skal skýra frá skiptingu fjárveitinga til ríkisaðila og verkefna, samanber 26. gr. laga um opinber fjármál.

Ákvæðið setur þannig þrengri skilyrði en eldri fjárreiðulög kváðu á um, enda fela lög um opinber fjármál í sér ný úrræði, þar með talið millifærslur innan málaflokka, varasjóði fyrir málaflokka og almennan varasjóð sem ætlað er að mæta öllum helstu frávikum frá áætlunum.“

Virðulegur forseti. Ég rek ekki nánar þann texta sem við birtum í meirihlutaáliti fjárlaganefndar er varðar lögin um opinber fjármál en vil aðeins geta þess að að þessu sinni er umfang fjáraukalagafrumvarpsins fyrst og fremst vegna þeirra áfalla sem orðið hafa hér í atvinnulífi og útgjöldum er þeim tengjast og eru þau útgjöld og þær breytingar á fjárlögum raktar nánar í töflu á bls. 2 í nefndaráliti okkar. Þar segir um helstu útgjaldamál frumvarpsins:

„Í frumvarpinu er lagt til að fjárveitingar hækki um samtals 14.906,5 millj. kr. nettó frá fjárlögum ársins. Um er að ræða hækkanir samtals að fjárhæð 19.859 millj. kr. en á móti vegur 5.100 millj. kr. lækkun almenns varasjóðs.

Tiltölulega fá stór útgjaldamál skýra meginfrávik frá fjárlögum. Þau snúa að hagrænum og kerfislegum forsendum og áhrifum af dómsmáli og áliti umboðsmanns Alþingis í almannatryggingakerfinu.

Útgjöld vegna atvinnuleysisbóta og framlaga til Ábyrgðasjóðs launa hækka samtals um 7,6 milljarða kr. Atvinnuleysi stefnir í 3,5% á árinu samanborið við 2,8% eins og miðað var við í forsendum fjárlaga ársins 2019 og má rekja það að miklu leyti til falls WOW fyrr á árinu. Greiðslur vegna fæðingarorlofs verða rúmlega 1,1 milljarði kr. hærri en gert var ráð fyrir en aukninguna má helst rekja til þess að hámarksgreiðslur hafa hækkað frá fyrra ári auk þess sem foreldrum sem taka fæðingarorlof hefur fjölgað umfram forsendur fjárlaga

Útgjöld til málefnasviða örorku og aldraðra aukast samtals um 7,3 milljarða kr. Þar vega þyngst einskiptisútgjöld vegna dóms Landsréttar um ólögmæti afturvirkrar skerðingar á greiðslum til ellilífeyrisþega vegna greiðslna úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum en áætluð áhrif þess dóms nema um 5,4 milljörðum kr. Leiðréttingin náði til 29 þúsund einstaklinga vegna ellilífeyris fyrir janúar og febrúar 2017. Þá er einnig verið að leiðrétta örorkubætur í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis sem varðar áhrif búsetutíma erlendis á rétt til örorkulífeyris. Áhrifin af því nema um 800 millj. kr. en alls hafa 320 manns fengið þá leiðréttingu það sem af er árinu.

Þá er gerð tillaga um tæplega 1,5 milljarða kr. aukningu framlaga vegna halla sjúkratryggingaliða sem ekki hefur verið brugðist við með viðeigandi ráðstöfunum. Einkum er um að ræða umframgjöld vegna sjúkraþjálfunar sem nema um 660 millj. kr. og er það 13% umfram áætlun fjárlaga. Á sl. fimm árum hafa útgjöld til sjúkraþjálfunar aukist um 177% eða 3,5 milljarða kr. að nafnvirði. Áætlað er að nokkrir aðrir liðir sjúkratrygginga verði umfram forsendur fjárlaga, svo sem erlend sjúkrahúsþjónusta 410 millj. kr. og útgjöld vegna hjálpartækja 270 millj. kr.

Gerðar eru tillögur um samtals 790 millj. kr. framlag til samgöngumála vegna ófyrirséðs viðbótarkostnaðar sem Vegagerðin þarf að greiða vegna nýs Herjólfs. Þar er annars vegar um að ræða greiðslur til skipasmíðastöðvar vegna lokauppgjörs við afhendingu skipsins og hins vegar kostnaðarauka vegna seinkunar á afhendingu til Vestmannaeyjabæjar. Önnur útgjaldatilefni vega minna og vísast til greinargerðar frumvarpsins til nánari skýringa á þeim.

Í álitinu segir um endurmat á afkomu ársins 2019 að þrátt fyrir að frumvarpinu sé ekki ætlað að breyta tekjum og gjöldum til samræmis við útkomuspá er eigi að síður gerð grein fyrir endurmati á afkomu ársins í greinargerð með frumvarpinu. Þær eru helstar hér um tekjur og gjöld ríkissjóðs en heildartekjur ríkissjóðs eru nú áætlaðar 862,2 milljarðar kr. sem er tæplega 30 milljarða kr. lækkun frá fjárlögum. Endurmatið byggist á nýrri þjóðhagsspá og upplýsingum um álagningu og innheimtu skatttekna það sem af er árinu. Um gjöldin er að segja að heildargjöld eru nú áætluð 877 milljarðar kr. eða 13,5 milljörðum kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Á móti þessum gjaldaauka má nefna að nú stefnir í að vaxtabætur verði um 200 millj. kr. innan fjárheimilda og fyrir utan 5,1 milljarðs kr. lækkun almenna varasjóðsins í frumvarpinu er áætlað að nýta um 2 milljarða kr. til viðbótar af honum til að vega á móti útgjaldaauka á ýmsum sviðum, m.a. vegna endurmats á launa- og gengisforsendum. Loks er miðað við að vaxtagjöld geti orðið um 1 milljarði kr. lægri en áætlun fjárlaga þar sem ný þjóðhagsspá miðast við lægri verðbólgu og lægra vaxtastig en var í fjárlögum.“

Virðulegur forseti. Ég rek ekki frekar efnisatriði varðandi uppgjör ríkissjóðsins frá janúar til september 2019 en það uppgjör hefur verið ítarlega rætt í hv. fjárlaganefnd. Ég vil víkja orðum mínum að því sem er í frumvarpinu þar sem við erum að færa varasjóð gildandi fjárlaga niður um 5,1 milljarð. Fjárlaganefnd hefur í umræðu og vinnu sinni við fjáraukalagafrumvarpið og fjárlagafrumvarpið látið sig varða nýtingu varasjóða og þau úrræði sem fjárreiðulögin nú innifela. Það er þess vegna sem meiri hluti fjárlaganefndar tekur fram í nefndaráliti sínu eftirfarandi texta um notkun almennra varasjóða og varasjóða málaflokka:

„Við umfjöllun um frumvarp til fjáraukalaga og árshlutauppgjör ríkissjóðs innan ársins glímir nefndin enn við þann vanda að hafa ekki glöggt yfirlit um stöðu fjárheimilda einstakra málaflokka og notkun varasjóða. Framkvæmd við notkun varasjóða, og jafnvel einstakra safnliða þar sem þeir eru enn við lýði, er ekki enn markviss. Því er ekki fullkomlega ljóst hvort úrræði laga um opinber fjármál hafa verið fullnýtt. Lögin gera ráð fyrir flutningi heimilda á milli ára. Heimilt er að færa á milli viðfangsefna innan málaflokka og að endingu að nýta heimildir varasjóða. Við framkvæmd fjárlaga er stuðst við þá meginreglu að eftir fyrstu sex mánuði fjárlagaársins er ekki horft til varasjóða, en bæði við gerð áhættumats í upphafi árs og við þriggja mánaða uppgjör er full ástæða til að bregðast við með markvissum hætti af hendi ráðuneyta. Eftir sex mánaða uppgjör og enn frekar við níu mánaða uppgjör er ástæða til að taka verklag við notkun varasjóða fastari tökum.

Nefndin telur að við framkvæmd fjárlaga verði þetta verklag að vera mun markvissara en verið hefur fram til þessa. Við framlagningu fjáraukalagafrumvarps haustið 2020 verður að gera ráð fyrir að þetta verklag verði að fullu komið til framkvæmda. Liggja verður fyrir skýrt yfirlit um stöðu fjárheimilda, úrræði um millifærslur og stöðu varasjóða áður en ákvörðun um fjáraukalagatillögur eru teknar.

Nefndin leggur til að fjármála- og efnahagsráðuneytið vinni að markvissri kynningu á verklagi fyrir einstök ráðuneyti.“

Virðulegur forseti. Það má rekja það og ítreka það sem bæði kom í framsögu hæstv. fjármálaráðherra við framlagningu frumvarpsins og rakið er í nefndaráliti meiri hlutans, að frávikin frá fjárlögum, að fráteknum þeim liðum sem falla til vegna ytri áfalla og hagrænnar skiptingar útgjalda, eru óvenjulítil. Frumvarpið dregur því fram að við höfum í fjármálastjórn ríkisins með þeim fjárreiðulögum sem við vinnum nú eftir frá árinu 2015 náð umtalsverðum árangri í að ná betur utan um stýringu fjármuna.

Ég vil líka nefna að við leggjum nú til, vil ég segja, áður óþekktar fjárhæðir til varasjóða, t.d. í þeim fjárlögum sem við samþykktum fyrir næsta ár, um 10 milljarða kr. í varasjóði, það er til hliðar, og þá hafa málaflokkar og málefnasvið líka varasjóði. Við erum að reyna að draga það fram að verklag við nýtingu þeirra fjárstýringartækja sem eru í fjárreiðulögunum verður að vera markvissari en það hefur verið hingað til. Þetta ítrekum við hér við afgreiðslu frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 2019, ekki síst til að aga þessa fjármálastjórn enn betur og gera hana gagnsærri. Það má alveg taka undir þá gagnrýni á fjáraukalagafrumvarpið þar sem lögð er til tilfærsla á 5,1 milljarði úr varasjóði vegna útgjalda á þessu ári, að sú ráðstöfun tryggi ekki það gagnsæi sem við hefðum kannski þurft á að halda en allt ber þetta með sér að við erum að ná betur utan um það verklag sem fjárreiðulögin setur okkur fyrir og þær heimildir sem þau gefa.

Til viðbótar við framlagt frumvarp gerir meiri hluti fjárlaganefndar breytingartillögur sem taldar eru upp í nefndaráliti okkar og ég mun hlaupa á þeim í stuttu máli. Heildarfjárhæð þeirra breytinga er 398,1 millj. kr. og að auki eru breytingartillögur sem ég mun gera lítillega grein fyrir síðar.

Breytingartillögur fjárlaganefndar eru eftirfarandi: Gerð er tillaga um 51,4 millj. kr. hækkun fjárheimildar til Ríkisendurskoðunar. Það er gerð tillaga um 8 millj. kr. fjárveitingu til að standa undir lögmannsaðstoð og skilum á greinargerð til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna málflutnings fyrir dómstólum vegna skipunar á fjórum dómurum í Landsrétt. Það er gerð tillaga í málaflokki 23.10, sérhæfð sjúkrahúsþjónusta, um 70 millj. kr. fjárveitingu vegna nauðsynlegrar endurnýjunar á aðalrafmagnsdreifikerfi og rafmagnsstjórnkerfi Sjúkrahússins á Akureyri. Í málaflokki 24.10 er gerð tillaga um 40 millj. kr. fjárveitingu til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til að mæta álagi vegna aukins atvinnuleysis í umdæminu. Í málaflokki 27.40, aðrar örorkugreiðslur, er gerð sú tillaga að varið verði 210 millj. kr. framlagi til viðbótar við desemberuppbót örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega um 10.000 kr. á mann fyrir þá sem fengu greidda desemberuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2019. Samhliða þessari tillögu verður lögð fram breytingartillaga við 3. umr. um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga árið 2020 til að tryggja að þessi viðbótargreiðsla verði skattfrjáls og hafi ekki áhrif á aðrar greiðslur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, svo sem húsnæðisbætur og sérstakan húsnæðisstuðning. Markmiðið er að aðrar greiðslur haldist óskertar þrátt fyrir þessa upphæð. Þessi viðbótardesemberuppbót er því hér í fjárauka og hefur þegar verið samþykkt sú lagabreyting sem ég var að rekja áðan við afgreiðslu laga um ýmsar ráðstafanir í ríkisfjármálin og var afgreidd frá Alþingi í gær.

Þá er að lokum tillaga meiri hluta fjárlaganefndar vegna málaflokks 32.10 þar sem gerð er tillaga um 18,7 millj. kr. framlag til embættis landlæknis til þess að mæta ófyrirséðum kostnaði vegna flutnings af Barónsstíg 47 í tímabundið húsnæði á Rauðarárstíg 10 vegna mygluskemmda sem komu upp í fyrrnefnda húsnæðinu.

Síðan er nokkur listi af breytingartillögum nefndarinnar sem eru fyrst og fremst millifærslur, níu tillögur sem ekki hafa áhrif á heildarniðurstöðu frumvarpsins en eru fyrst og fremst tilfærslur á milli liða, breytingar á hagrænni skiptingu gjalda eða tillögu um breytta tegundaskiptingu fjárlaga.

Ég nefndi, virðulegi forseti, að hér væri líka í tengslum við fjáraukalagafrumvarpið breytingartillaga er fram kom eftir að nefndarálitinu var dreift á þinginu. Um er að ræða 353 millj. kr. framlag til málaflokks 09.10 Löggæsla þar sem lagt er til að lögreglunni verði veittir þessir fjármunir til tækjakaupa. Á móti er síðan tekjufærsla í ríkissjóð þannig að tillagan hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs á árinu en um er að ræða tekjur sem féllu til vegna samstarfs í löggæslumálum samkvæmt alþjóðasamningum við aðrar þjóðir. Það lá einfaldlega ekki fyrir við afgreiðslu fjáraukans á sínum tíma, hvorki til þingsins og síðan afgreiðslu fjárlaganefndar á fjáraukalagafrumvarpinu á sínum tíma, hvernig ætti að fara með þær tekjur en hv. formaður nefndarinnar, Willum Þór Þórsson, hefur dreift þessari breytingartillögu við fjáraukann, en ég geri grein fyrir henni í þessu stutta máli.

Virðulegur forseti. Undir þetta álit skrifa Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, Haraldur Benediktsson framsögumaður, Njáll Trausti Friðbertsson, Páll Magnússon og Steinunn Þóra Árnadóttir.