150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[16:25]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil nú byrja á því að biðjast afsökunar á því að hafa ekki heyrt þegar til mín var kallað áðan. Ég ber að sjálfsögðu fyrir mig þá afsökun að ég hafi snúið slæma eyranu að salnum.

Ég þakka hv. þingmanni framsöguna í þessu máli. Það sem helst truflar mig alltaf í þessu, af því að við erum enn þá, getum við sagt, að slíta barnsskónum í útfærslu og túlkun á lögum um opinber fjármál, er að mér finnst við falla allt of oft í þá freistni að reyna að rökstyðja útgjöldin inn í ramma laganna í staðinn fyrir að draga línu í sandinn og segja: Hér eru útgjöld sem standast ekki mál og framkvæmdarvaldið verður einfaldlega að finna aðrar leiðir til að ráða bót þar á.

Þar staldra ég auðvitað við fyrirsjáanlegustu óvæntu útgjöldin í fjáraukalögum, hækkun framlags vegna samkomulags ríkis og kirkju, sem við höfum verið að gera ár eftir ár í fjáraukalögum. Það var algjörlega fyrirséð að koma myndi að þessari fjárhæð á þessu ári og hefði að sjálfsögðu átt að gera ráð fyrir henni í fjárlögum ársins. Við þurfum ekki að eyða mörgum orðum í það. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að þessi útgjaldaliður standist engan veginn lög um opinber fjármál, á grundvelli fjáraukalaga. Ef þessi liður telst óvæntur og ófyrirséður og ekki er hægt að bregðast við honum með öðrum hætti þá er í raun og veru hægt að rökstyðja hvað sem er inn í fjárauka.

Ég velti dálítið fyrir mér grunngildum laga um opinber fjármál, m.a. varfærni. Hver einasti greiningaraðili varaði stjórnvöld við því að forsendur fjárlagafrumvarps 2019 væru allt of bjartsýnar. Hefði þá ekki verið nær (Forseti hringir.) að gera frekar ráð fyrir auknum útgjöldum, t.d. vegna atvinnuleysis sem er algjörlega fyrirsjáanleg afleiðing ef hagvaxtarforsendur yrðu, (Forseti hringir.) eins og allir voru að segja hæstv. ríkisstjórn og fjárlaganefnd, lakari en ráð var fyrir gert?