150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[16:30]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það sem ég er að fara með þessu er að meiri hlutinn samþykkti fyrir rétt um ári síðan fjárlög sem voru með eins naumum afgangi og fjármálastefna ríkisstjórnarinnar leyfði, í því sem kalla mátti nokkuð sterkt efnahagslegt góðæri, á grundvelli hagspáa sem voru almennt hagfelldar. Það var gert þrátt fyrir mjög skýr aðvörunarorð yfirgnæfandi meiri hluta, leyfi ég mér að fullyrða, þeirra sérfróðu aðila sem komu fyrir fjárlaganefnd um að verið væri að vinna út frá allt of bjartsýnum efnahagsforsendum. Þess vegna hefði kannski verið nær lagi að hafa afganginn meiri og fjármálaráðherra hefur líka gagnrýnt að það sé litið á afkomumarkmiðið, fjármálastefnuna, sem þak en ekki gólf, þ.e. að afgangur skuli ekki vera meiri en samkvæmt fjármálastefnu. Það er freistnivandi sem (Forseti hringir.) stjórnvöld detta út í að skilja ekki eftir borð fyrir báru fyrir t.d. möguleg frávik í hagþróun og (Forseti hringir.) tíma ekki að gera bara strax ráð fyrir framlaginu til þjóðkirkjunnar í fjárlagafrumvarpi ársins en koma þess í stað með það í fjáraukalögum.

(Forseti (BHar): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörkin.)