150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að segja annað en að við eigum kannski ekki von á endurteknu atriði varðandi framlag til kirkjunnar á næstu árum. Það átti sér sínar skýringar. Menn voru í samningagerð og vildu ekki stíga það skref að hækka framlagið af því að samningar voru opnir. Ég held að það hafi verið varfærnislegt sjónarmið. Það má síðan deila um það út og suður hversu skynsamlegt er að framkvæma það síðan með þeim hætti. Við hv. þingmaður erum algerlega sammála um það.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir um lágmarksafgang þá í fyrsta lagi hélt meiri hlutinn sig við fjármálastefnu. Ég sagði áðan í fyrra andsvari mínu: Við erum einfaldlega að halda okkur við ákveðna mælikvarða sem við leggjum upp með í fjárlagafrumvarpinu. Það má alveg koma í mars og apríl og segja: Þetta var allt of bjartsýnt hjá okkur. En hvert erum við að fara? Ég held að það þurfi miklu ítarlegri og dýpri umræðu um það heldur en bara stutt andsvör ef við ætlum að leyfa okkur einhverjar sjálfstæðar túlkanir á því. Það verður að vera dýpri umræða (Forseti hringir.) og styðjast við einhverja fastmótaðri stefnu en tilfinningar einar.