150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:03]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að leggja út af þeim punkti sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson kom inn á í byrjun ræðu sinnar, að forsendur fjárlaga 2019, sem allt þetta byggist á, séu byggðar á sandi. Ég vil rifja upp með þingmanninum það sem gerðist hér fyrri part árs, allt meira og minna í marsmánuði. Fyrst fengum við tilkynningu um að loðnubrestur yrði, sem hefur í sögulegu samhengi alltaf þótt slæmt. Svo líða nokkrir dagar. Þá fáum við tilkynningu um að Icelandair muni kyrrsetja allar 737 Max vélar félagsins. Það er kyrrsetning sem stendur enn og óvissa verður fram eftir ári, miðað við nýjustu upplýsingar, sem er mikið og stórt mál. Síðan líða kannski tvær vikur og þá er tilkynnt um fall WOW air, félagið verður gjaldþrota, sem er risamál. Þetta gerist allt í marsmánuði, fyrri part árs. Hvernig áttu spáaðilar eða við sem vinnum í kringum fjárlögin að spá fyrir að þetta myndi allt gerast? Áttum við að gera ráð fyrir þessu? Ég hef aldrei skilið hvernig hv. þingmenn sem hér tala álíta að þetta hefðum við átt að sjá fyrir. Þetta er grundvöllurinn að því að hagvöxtur á þessu ári sem nú er að líða, sem var spáð í fyrra að yrði 2,6%, stefnir að því að verða 0,2%, fer tæplega 3% niður, sem að öllu jöfnu og í sögulegu samhengi hefði verið stóráfall fyrir íslenskt efnahagslíf. En samt er það bara ótrúlega gott hvernig mál standa.

Lykilatriðið er þá bara, og mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig áttum við að sjá fyrir allar þessar stóru meginforsendur sem ég var að telja upp breytast? Ef allt hefði staðist, þessir þrír punktar, þá hefði nú varla verið mikið í þessum fjárauka. Og fjáraukinn hefur aldrei nokkurn tímann gengið jafn vel upp. Þetta eru þrjár forsendur, þessar eru svona þær stærstu, og síðan koma einstakir dómar (Forseti hringir.) og annað sem ég tek kannski fyrir í seinna andsvari.