150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:05]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki að fara fram á að hv. þingmenn geti lesið framtíðina að öllu leyti. En þegar fjárlögin voru samþykkt og rædd í fyrra var það ekki bara Samfylkingin og aðrir stjórnarandstöðuflokkar sem sögðu að forsendur fjárlaganna 2019 væru of bjartsýnar. Samtök atvinnulífsins sögðu það sama. Það sama sagði Viðskiptaráð. Þetta er það sama og Alþýðusambandið sagði. Þetta er það sama og önnur verkalýðsfélög bentu á. Þetta er það sama og fjármálaráð, sem er sjálfstætt fyrirbæri sem fjármálaráðuneytið skipar, sagði. Forsendur fjárlaganna — og nú er ég ekki að tala um einstök áföll heldur stóru tölurnar — voru gagnrýndar af svo mörgum aðilum fyrir að vera of bjartsýnar. Hér var gert ráð fyrir of miklum hagvexti. Gert var ráð fyrir óbreyttu gengi krónunnar. Gert var ráð fyrir óbreyttu olíuverði og nánast óbreyttu atvinnuleysi. Þetta er allt umræða sem við áttum síðastliðið haust fyrir loðnubrestinn, fyrir fall WOW, ég veit það alveg. En þetta voru samt atriði sem við bentum á.

Menn þurfa að þekkja líka aðeins hagsöguna. Við sögðum að það væri fullkomlega óvarlegt að gera ráð fyrir samfelldum hagvexti í 14 ár. Það hefur bara aldrei gerst síðan Ísland byggðist en það var forsenda fjárlaganna í fyrra. Það er það sem ég er að gagnrýna. Ég ætlast að sjálfsögðu ekki til að hv. þingmaður sjái fyrir loðnubresti. Ég er alls ekki að segja það. Ég er bara að segja að hinar stóru grunnforsendur voru hæpnar. Á það var bent af fjölmörgum aðilum. Ég er enn þeirrar skoðunar að forsendur fjárlaganna sem við erum nýbúin að afgreiða, 2020, séu líka of bjartsýnar. Ég veit alveg að hv. þingmenn styðjast við þjóðhagsspá og annað slíkt, en takið eftir því að við getum líka litið til annarra spáa en hennar. Mér finnst forsendurnar og öll fjárlagagerðin (Forseti hringir.) byggjast einum of mikið á óskhyggju um að hér fari allt einfaldlega á besta veg. En það gerist oft ekki.