150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi verið þokkalega skýr hérna áðan. Ég ætlast ekki til að hv. þingmaður geti spáð nákvæmlega fyrir um hvaða áföll verði en það er hægt að gera ráð fyrir að hlutirnir fari ekki eins og hv. þingmaður gerir ráð fyrir. Við höfum ítrekað kallað eftir ítarlegri sviðsmyndagreiningu og öðru slíku.

Hv. þingmaður talar um að hér sé þokkalegur árangur. Sveiflan var 43 milljarðar árið 2019. Í staðinn fyrir tæplega 30 milljarða kr. afgang af ríkissjóði verður halli upp á 15 milljarða. Að sjálfsögðu veit ég að einstök áföll skýra hluta af því. En í guðanna bænum, af hverju geta hv. þingmenn ekki hlustað á þau varnaðarorð sem falla, ekki bara af mínum vörum eða annarra þingmanna í öðrum flokkum heldur líka frá sérfræðingum? Það var ítrekað sagt að forsendur fjárlaga væru of bjartsýnar. Þá er ég að tala um stóru forsendurnar. Ég ætlast ekki til að þið getið áttað ykkur á einstökum áföllum en ekki láta eins og þið hafið (Forseti hringir.) ekki heyrt raddir um að forsendur fjárlaga væru óraunsæjar. (Forseti hringir.) Það var ítrekað sagt við ykkur og má finna stað í nánast hverri einustu umsögn sem við fengum í fyrra þegar fjárlögin 2019 voru afgreidd.