150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:10]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni ræðuna. Hann fór í framsögu sinni yfir nefndarálit minni hluta hv. fjárlaganefndar og ég get tekið undir margt sem hv. þingmaður fór yfir, m.a. 26. gr. laga um opinber fjármál og þau atriði sem hafa margoft komið fram í ræðum um að útgjöld þurfi að vera óvænt, ófyrirséð og óhjákvæmileg. Við erum mikið að ræða þetta, enda er þetta visst aðhald og á að vera það. Ég get tekið undir margt fleira, t.d. yfirlit um ráðstöfun varasjóða sem við komum líka inn á í nefndaráliti meiri hluta og teljum nauðsynlegt að skoða og hv. þm. Haraldur Benediktsson, varaformaður hv. fjárlaganefndar, fór vel yfir þannig að ég ætla ekki að rekja það nánar. Það kemur ágætlega fram í nefndaráliti meiri hluta. Það er samhljómur um mjög margt.

Ég ætla að láta hjá líða, a.m.k. í fyrra andsvari, að fara yfir efnahagshluta ræðu hv. þingmanns. Mér myndi ekki endast andsvarið til þess. Hv. þingmaður fór yfir umsögn Ríkisendurskoðunar um fjáraukalagafrumvarpið og fór yfir þær ábendingar sem þar koma fram en lét hjá líða að fara yfir það sem er kannski lykilsetningin. Ég ætla að lesa hana upp, með leyfi forseta:

„Það er mat Ríkisendurskoðunar að fyrirliggjandi frumvarp sé í öllum meginatriðum í samræmi við ákvæði laga nr. 123/2015 um opinber fjármál.“

Mér fannst (Forseti hringir.) mikilvægt að þetta kæmi jafnframt fram.