150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og mér finnst það vera talsverð tímamót að minni hlutinn leggur nú fram eitt nefndarálit og óska minni hlutanum til hamingju með það. Ég held að það séu, eins og ég segi, nokkur tímamót að það skuli hafa náðst. Efnislega um það nefndarálit ætla ég í fyrra andsvari mínu að fjalla aðeins við hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson. Það er í öllum aðalatriðum eitthvað sem ég hefði alveg getað tekið undir og er býsna mikið samhljóða áliti meiri hluta fjárlaganefndar, að því slepptu að við getum talað mikið um hvort forsendur fjárlaga hafi verið réttar og hvort við hefðum átt að fara þessa leiðina eða hina. Ég stend við það sem ég hef áður sagt í þessari umræðu. Á ákveðnum tímapunkti er einfaldlega dregið strik í sandinn og það er stuðst við ákveðna mælikvarða, ákveðnar spár, til þess að byggja fjárlögin á. Stóru frávikin eru öll óvænt og ófyrirséð og það gerir minni hlutinn ágætlega að umfjöllunarefni í nefndaráliti sínu.

Það sem ég vildi kannski ræða við hv. þingmann í fyrra andsvari mínu er hvernig við komum í betri farveg notkun varasjóðanna og almenna varasjóðsins og varasjóða málaflokka og hvort hann geti að einhverju leyti samsamað sig því sem við erum að draga fram í okkar nefndaráliti. Ég held að það sé nefnilega ágætur samhljómur við álit minni hlutans í þeim efnum.

Ég ætla aðeins að nefna að lokum hið margumtalaða kirkjujarðasamkomulag og óvænt og ófyrirséð í því. Það er nefnilega sá punktur í því máli að þar var verið að deila um samning. Við gátum ekki gefið okkur að ríkið hefði getað sótt bætur fyrir ríkissjóð með dómi og þess vegna hefði það orðið algjörlega óvænt og ófyrirséð. (Forseti hringir.) Þessi deila er leyst í dag og við erum að ganga frá því máli og stöndum vonandi ekki frammi fyrir slíkum fjáraukabeiðnum í framtíðinni.