151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

málefni atvinnulausra.

[15:12]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Við höfum auðvitað gripið til margvíslegra aðgerða til að tryggja félagslega þáttinn. Það lýtur að þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til vegna Covid-19, margvíslegar aðgerðir á vinnumarkaði og ég rakti hluta af þeim áðan. Við höfum líka gripið til margvíslegra félagslegra aðgerða sem hafa fæðst í samstarfi og samtali á milli ráðuneytisins og félagsþjónustu sveitarfélaganna sem hefur með höndum þjónustu við alla viðkvæmustu hópa landsins. Þegar við vinnum að þeim þætti sem hv. þingmaður vitnar hér til, sem er framlenging bótatímabils, er hann auðvitað líka skoðaður í samtali og samvinnu á milli þeirra aðila sem þjónusta þessa viðkvæmu hópa. Þegar ráðherra segir að eitthvað sé í skoðun hefur það sýnt sig að sumt af því sem við skoðum raungerist í framkvæmdum og annað ekki. Við erum einfaldlega áfram að vakta þetta. Við ætlum okkur að halda utan um fólk í þessum faraldri og eftir því sem hann dregst á langinn munum við grípa til frekari aðgerða. Það höfum við sýnt á síðasta ári og það munum við líka gera á því ári sem (Forseti hringir.) nú er að hefjast.