151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

stjórnarsamstarfið.

[15:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Gleðilegt ár. Stór verkefni og mikilvæg, sum hver umdeild, eru fram undan og krefjast að vissu leyti samheldni, samvinnu, upplýsinga og trausts, ekki síst þegar kemur að trausti á milli stjórnarflokka. Við erum að tala um skref til að einkavæða Íslandsbanka, sölu á hlut í Íslandsbanka og þar sýnist mér vera ákveðin kjölfesta í Vinstri grænum. Við erum að tala um mál eins og sóttvarnir og bóluefni. Við erum að tala um umdeild mál. Hæstv. umhverfisráðherra kom á fund okkar hjá þingflokki Viðreisnar og fór vel yfir miðhálendisþjóðgarðsmálið. Við erum að tala um stjórnarskrá, fjölmiðla og sameiningu sveitarfélaga. Allt eru það mál sem hafa verið meira og minna í stjórnarsáttmálanum og eru núna á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Það er auðvitað mikilvægt þegar svo ber undir að traust ríki á milli stjórnarflokka. Ég vil segja það hins vegar forsætisráðherra og Vinstrihreyfingunni – grænu framboði til hróss að þegar maður horfir yfir kjörtímabilið — og það getur vel verið að fólk fari að misskilja þetta á allan hátt, en ég verð samt að nefna það sem vel er gert — virðist vera ákveðin kjölfesta í stjórnarsamstarfinu þegar kemur að Vinstri grænum. Þau beygja ekki frá stjórnarsáttmálanum og eru að horfa á sölu á hlutum í Íslandsbanka sem þarf að vanda til og ég veit að ráðherra hefur metnað til þess og ýmissa annarra þátta á meðan meiri óreiða er til að mynda hjá stærsta flokknum í ríkisstjórn, og síður en svo að þar sé lengur kjölfestu að finna. Mig langar að spyrja í ljósi þess að forsætisráðherra sagði milli jóla og nýárs að brestir hefðu komið í traustið á milli stjórnarflokkanna, milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks, hvort forsætisráðherra hafi núna endurheimt fullt traust til Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) eftir að hún lýsti því yfir að komið hefðu ákveðnir brestir í það.