151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:20]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið en ég er eiginlega engu nær. Það er þannig að miðað er við að veirufárið kosti ríkissjóð í kringum milljarð á dag, í útgjöldum annars vegar og í töpuðum tekjum hins vegar. Það er rætt um að söluandvirði þessa fjórðungshlutar gæti hlaupið á 35–40 milljörðum. Ef það fer allt í rekstur myndi það kannski dekka rúmlega mánuð af þessu fjártjóni ríkissjóðs. Þegar fárinu linnir og allt fer á fleygiferð og velta eykst og skatttekjur ríkissjóðs þá er náttúrlega auðvelt að sjá fyrir sér sviðsmynd þar sem þessar skuldir, sem hefur verið stofnað til vegna fársins, verði greiddar niður á einhverjum eðlilegum skynsamlegum tíma. En hér erum við að tala um arðbæra eign í eigu ríkissjóðs, eina af bestu eignum ríkissjóðs sem hefur skilað ríkissjóði miklum tekjum í formi arðgreiðslna. Þess vegna er það alveg nauðsynlegt (Forseti hringir.) að ráðherra geri grein fyrir því hvort hann ætlar bara að setja þetta í hítina, eins og sagt er, eða hvort hann ætlar að umbreyta henni í arðbærar eignir. (Forseti hringir.) Við stöndum frammi fyrir þörf á gífurlega miklum framkvæmdum, til að mynda í samgöngumálum og í fleiri málaflokkum.