151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:31]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal taka þessa málsvörn til greina þó svo að ég hafi greinilega misst af öllum þeim ræðum á þeim tíma. Varðandi rökin er rétt að það er skýrsla frá Bankasýslunni, það var haldin ræða hér áðan þar sem talin voru upp ýmis rök, en öll þau rök voru á því formi að það væri ekki endilega skaðlegt. Það er eitthvað sem ég er alveg tilbúinn til að kaupa í ljósi þess að það er ýmislegt jákvætt í gangi á hlutabréfamörkuðum þótt merkilegt kunni að virðast í ljósi aðstæðna. Það eru kannski einhverjar aðstæður sem eru fínar, en ekkert af þessu er í sjálfu sér rök fyrir því að selja. Þetta eru bara rök fyrir því að það sé ekki endilega hættulegt að selja. Ég hef reyndar séð þau rök að það mætti mögulega spara 100 millj. kr. á ári miðað við þær forsendur (Forseti hringir.) sem liggja fyrir. Er það raunverulega nóg? Er það næg ástæða til að selja 25% í bankanum? Ég verð að fá einhver jákvæð rök.