151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:43]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að byrja á því að lýsa yfir að ég skil ekki hvaða ljóshraða verið er að tala um. Og það er ekki bara í ræðu hv. þingmanns heldur hefur það komið fram í ræðum fleiri þingmanna í dag að allt sé þetta í svo miklum flýti og eins og það hafi bara hrunið af himnum ofan að það væri mögulega hugmynd að losa um eignarhald á Íslandsbanka. Það hefur auðvitað legið fyrir frá því að þessar eignir komu í hendur ríkisins að á einhverjum tímapunkti væri mjög eðlilegt að losa um þær. Komið hefur verið inn á það að þetta sé stefna þessarar ríkisstjórnar, heil hvítbók hefur verið skrifuð um þetta og við höfum rætt hana hér í þingsal og í nefndum þingsins. Það er búið að veita heimild fyrir þessu í fjárlögum ár eftir ár. Allt tal um einhvern ljóshraða og að þetta sé svo óvænt o.s.frv. er bara fjarstæðukennt, bara bull og vitleysa. Aftur á móti er áhugavert að fá það fram hér hvaða flokkar telja eðlilegt að ríkið eigi banka og ekki bara einn, ekki bara hlut í einum, heldur eigi tvo af þremur. Það er gott að þjóðin viti að það sé þá stefna viðkomandi flokks.

Hv. þingmaður kom líka inn á það áðan og talaði svolítið eins og ríkið mætti ekki eiga eða reka nein fyrirtæki, það væri stefna þessarar ríkisstjórnar og þá sérstaklega stefna þess flokks sem ég starfa fyrir. Ég ætla að segja nei við því. Ég vil aftur á móti að ríkið einbeiti sér fyrst og fremst að hagsmunum almennings í þessu landi og hugi að öryggi, góðum innviðum, hvort sem er í samgöngum, fjarskiptum, heilbrigðisþjónustu, menntakerfi eða félagskerfi. Þetta er það sem ég vil að ríkið einbeiti sér að, en síður að ríkið sé að gambla með peninga í bönkum eða fjarskiptafyrirtækjum eða flugfélögum eða öðru sem telja mætti upp. Það væri þá ágætt að fá það fram frá hv. þingmanni hvers konar rekstur hún telur að ríkið eigi að stunda.