154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[23:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Fyrst endurmat útgjalda. Það er ómögulegt að stunda endurmat útgjalda ef það vantar mælanleg markmið. Án þeirra er endurmat útgjalda einfaldlega þannig: Þú fékkst 100 milljónir, notaðirðu 100 milljónir? Svarið er já. Náðirðu ásættanlegum árangri? Svarið verður væntanlega já. Og hvað eigum við að gera þá, þegar við höfum ekki spurninguna sem ætti að vera ef það væru til góð mælanleg markmið: Náðist að sinna tilteknum fjölda eða hlutfalli af útköllum á ásættanlegum tíma? Var nægileg mönnun til að það yrði ekki biðlisti á bráðamóttökunni? Þetta eru svona árangursmælikvarðar sem við þurfum að hafa í fjármálaáætlun til að geta sinnt endurmati útgjalda — og þá aðallega gagnvart stefnu stjórnvalda.

Síðan er það hitt sem við erum með innan ramma, það sem er í rauninni samkvæmt lögum. Það er bara aðeins öðruvísi og kannski aðeins skýrara. En við þurfum að átta okkur á því að verkefnið þarna er tvöfalt. Að einhverju leyti eru mælanleg markmið stjórnvalda að miða að því að breyta útkomu og umfangi þeirra verkefna sem lög eru kannski ekki hárnákvæm um. Þannig að það er verið að túlka það. Nægilega góð þjónusta á bráðamóttöku hefur t.d. hingað til verið talin sú að fólk sé ekki að bíða í meira en tvo tíma eða að leikskóli byrji ekki fyrr en við tveggja og hálfs árs aldur eða eitthvað svoleiðis. Markmið stjórnvalda er að breyta þeirri skilgreiningu (Forseti hringir.) þannig að það verði einn og hálfur tími í bið eða að það sé byrjað við tveggja ára aldur. (Forseti hringir.) Þannig að það er útfærsla á lögunum sem við verðum að hafa þarna undir.