132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Gögn með frumvarpi um Ríkisútvarpið.

[12:02]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Eitt af þeim málum sem hér liggja og bíða 1. umr. er frumvarp ríkisstjórnarinnar og menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið.

Í júlí, hygg ég að það hafi verið frekar en júní, var það frumvarp boðað á ný í þinginu með mikilvægri breytingu sem var sú að rekstrarformið sem í frumvarpinu í fyrra var sameignarfélag skyldi nú vera hlutafélag. Fyrir því var sögð sú ástæða að athugasemdir frá ESA leyfðu ekki annað en að stofnað yrði hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins.

Þegar þingið kom saman bar ég strax upp það erindi í menntamálanefnd að fá þessi samskipti ESA og íslensku ráðuneytanna, fjármálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins. Það mál var þar sett í athugun, fund af fundi satt að segja, og að lokum var, að ég hygg í desembermánuði, komið með þau svör frá ráðuneytinu — það annaðist þá formaður nefndarinnar hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson — að ráðuneytin gætu ekki orðið við því en þessi bréfaskipti og samskipti og þeir textar allir mundu fylgja frumvarpinu sem væri verið að leggja fram. Ég sætti mig að sinni við það, enda lítið annað að gera þó að rök væru nú ekki á bak við þá skýringu. En þegar frumvarpið kom fylgdu engir slíkir textar nema endursögn á þessum samskiptum.

Ég tel, forseti, að ekki sé hægt að hefja umræðu um málið án þess að fá þessa texta og beini því þess vegna til forseta að fá textana hjá ráðherrunum tveimur, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. menntamálaráðherra, hvor þeirra sem er með þetta mál nákvæmlega, til þess að 1. umr. geti hafist eða tefjist ekki af því tilefni.