132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Gögn með frumvarpi um Ríkisútvarpið.

[12:21]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka þann stuðning sem komið hefur fram í umræðunni við beiðni mína til forseta um að hlutast til um það við ráðherrana tvo, fjármálaráðherra og menntamálaráðherra, sem fara saman með (Gripið fram í.) þetta mál, sinn með hvorn þátt þess. Það vekur furðu mína að heyra hinn vaska og knáa og ágæta formann menntamálanefndar, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, halda því fram að það sé vegna anna í ráðuneytinu nánast sem ekki hafi tekist að búa þessi gögn þannig út að hægt sé að afhenda þau. Í sjálfri greinargerðinni kemur þó fram að fundur var haldinn með ESA og embættismönnum fjármála- og menntamálaráðuneytisins 9. júní í sumar. Það kemur líka fram að fyrsta bréfið var sent 3. júní frá ESA og síðan hefur e.t.v. eitthvað gengið með óformlegum eða misformlegum hætti á milli en í greinargerðinni er það nefnt að fjármálaráðuneytið hafi svarað bréfi ESA 15. ágúst. Það er nokkurn veginn tæpum fjórum mánuðum áður en frumvarpið kemur fram og hefði átt að vera hægðarleikur fyrir þessi ráðuneyti að leggja fram þau gögn sem þá lágu fyrir á þessum tíma. Það er því miður ekki hægt að taka mark á hinum annars ágæta formanni menntamálanefndar hvað þetta varðar en ég vil taka fram í því samhengi að hér tel ég ekki við hann að sakast í þessu efni. Eitt svarið var þannig að gögnin væru í þýðingu þannig að ráðuneytin virðast ekki hafa haft mjög skýra línu um það til hvers ætti að afhenda þessi gögn.

Ég tel, forseti, að ekki sé hægt að stofna til 1. umr. fyrr en þessi gögn fást þannig að ef ráðuneytin, fjármála- og menntamálaráðuneyti og yfirmenn þeirra, ætla að tefja 1. umr. þá er (Forseti hringir.) það þeim í sjálfsvaldi en ég bið forseta að stilla svo til að þetta mál, frumvarpið um Ríkisútvarpið hf., geti fengið þinglega meðferð hið fyrsta.