132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Eldsneytisflutningar til Keflavíkurflugvallar.

261. mál
[12:40]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þann ríka skilning hv. þingmanna á því að draga þurfi úr flutningum með því að færa til olíubirgðastöðvar. Ég hafði lúmskt gaman af því að heyra það frá hv. 5. þm. Norðaust., þingmanni Vinstri grænna, að lausnin fælist í því að skylda herinn til að leysa þetta fyrir okkur. Þannig að batnandi mönnum er best að lifa.

Það kann vel að vera að ég hafi ekki kveðið nógu sterkt að orði — það er þá kannski meðfædd hæverska mín — en sú afstaða mín liggur algerlega fyrir að ég tel að færa eigi olíubirgðastöðina til að koma í veg fyrir þessa miklu olíuflutninga á meginumferðaræðum.

Það liggur jafnframt fyrir að í gangi eru viðræður við varnarliðið um að nýta Helguvíkurhöfnina. Það fer ekkert á milli mála af hálfu samgönguráðuneytisins að viljinn er skýr hvað það varðar að við teljum að það eigi að færa þetta til Helguvíkur. Að því vinnum við án þess að það sé gert með digrum yfirlýsingum á Alþingi eða annars staðar. Ég tek því undir með hv. þm. Jóni Gunnarssyni, og öðrum þingmönnum Suðurkjördæmis, að þetta er leiðin að nýta Helguvíkina og hann má vera alveg viss um að viljinn er skýr og klár af minni hálfu hvað það varðar.