132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Viðhald vegarins á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.

275. mál
[12:57]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og ég er að vissu leyti ánægð með þau. Ég er ánægð með að heyra að markmiðið sé skýrt, þ.e. að tryggja öryggi vegfarenda á leiðinni sem hér er til umræðu. En það vantaði mikilvægt atriði í svar ráðherra, þ.e.: Hvenær er fyrirhugað að tryggja að vegfarendur geti farið á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar án þess að þurfa að óttast um líf sitt?

Ef sú leið verður farin sem hefur verið til umræðu frá því að fjármagnið var tryggt til framkvæmda þá vantar stóra hluta inn á leiðina og ekkert gefur okkur vísbendingu um hvenær eigi að ráðast í það framhald og það m.a. veldur íbúum Bolungarvíkur miklum áhyggjum. Það er ekkert skrýtið þó að fólk hafi talið að umrædd leið sem nú er uppi á borðinu sé sá kostur sem eigi að fara. Fjármagnið bendir eindregið til þess. Umræðan hefur eingöngu verið um þá leið nema sú umræða sem hefur verið haldið uppi af Bolvíkingum sjálfum og það er þeirra verk sem hefur þó valdið því að verið er að skoða aðrar leiðir. Ég fagna því að þrýstingur Bolvíkinga virðist vera að bera árangur og ég hvet Bolvíkinga til að halda fast áfram í viðleitni sinni til að fá ein jarðgöng á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar þannig að vegfarendur verði öruggir á leið sinni þarna á milli.