132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Rækjustofninn í Arnarfirði.

354. mál
[13:49]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég heyrði ekki að hæstv. ráðherra segði álit sitt á þessari tilraun. Það væri þess vegna fróðlegt að fá að heyra hvað hann segir um hana. Hún er sjálfsagt áhugaverð en spurningin er hvort hún virkar ekki þveröfugt á rækjustofninn og ég held að það sé ástæða til að halda að svo geti verið. Veiðar á rækju hafa alltaf verið sveiflukenndar og rækjustofnar eru það og alveg sérstaklega í þessum litlu vistkerfum í fjörðunum. Sú veiði og það arðrán sem þar er í gangi á hverjum tíma hefur þess vegna gríðarleg áhrif. Ég tel að það sé full ástæða til að fara varlega í tilraun eins og þessa og spurningin er hvort menn hafi valið réttan stað fyrir hana þarna, en tilraunin er áhugaverð og full ástæða til að reyna hana við aðstæður þar sem ekki er verið að stofna lífríkinu í hættu.