132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Atvinnumál á Ísafirði.

339. mál
[14:20]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hvert starf er dýrmætt sérstaklega þar sem atvinnuástand er ótryggt. Ákvörðun Símans um að leggja niður starfsstöð Já á Ísafirði er mér eins og öllum sem láta sér atvinnumál á landsbyggðinni einhverju skipta áhyggjuefni. Boðað hefur verið að með lokun starfsstöðvarinnar leggist af fimm stöðugildi um næstu áramót eða um nýliðin áramót. Það munar um minna. Bæjarstjórn Ísafjarðar hefur aftur á móti brugðist við þessu af framsýni að mínu mati og dugnaði og þar munu menn greinilega ekki ætla að sitja hjá aðgerðalausir. Bæjarstjórinn hefur ýtt úr vör vinnu til að meta með hvaða hætti hægt sé að skapa grundvöll fyrir stofnun og rekstur nýs fyrirtækis sem tæki að sér símaþjónustu, t.d. fyrir fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Það er von mín að sú vinna leiði til farsæls árangurs enda er mun farsælla að heimamenn geti boðið fram þjónustu á viðskiptagrundvelli en að ríkið komi að málum með beinum hætti.

Atvinnuuppbygging á Ísafirði er meðal mikilvægustu áherslna í væntanlegri byggðaáætlun sem vonandi verður rædd hér á næstu dögum. Þar ber hæst framkvæmd vaxtarsamnings Vestfjarða sem var undirritaður sl. vor. Aðilar að þessum samningi eru helstu fyrirtæki á Vestfjörðum, bankar og sparisjóðir, auk sveitarfélaga og opinberra stofnana. Markmið samningsins er að efla Vestfirði sem eftirsóttan valkost til búsetu, m.a. með að styrkja vaxtargreinar svæðisins og efla svæðisbundna þekkingu. Lagt er til grundvallar að þetta muni fjölga sterkum og arðsömum fyrirtækjum sem geti boðið vel launuð störf sem auki framboð á vörum og þjónustu og leiði til þess að samkeppnishæfni svæðisins eflist. Það er Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða sem annast framkvæmdastjórn samningsins en í því telst m.a. vinna við uppbyggingu klasa á kjarnasviðum Vestfjarða og önnur verk sem eru til þess fallin að efla samkeppnisstöðu svæðisins.

Á gildistíma samningsins sem er frá miðju ári 2005 og til ársloka 2008 mun iðnaðarráðuneytið verja 75 millj. kr. til framkvæmdar vaxtarsamningsins en heildarkostnaður við hann er um 140 millj. Það er því ómögulegt annað en að álykta að umtalsverðu fé sé nú varið til atvinnuuppbyggingar á Vestfjörðum og Ísafjörður vafalítið í brennidepli hvað það varðar.

Þá hefur iðnaðarráðuneytið gert samkomulag við sjávarútvegsráðuneytið um að efla rannsóknir og þróunarstarf á sviði sjávarútvegs. Til grundvallar liggur sameiginlegt markmið ráðuneytanna, að efla nýsköpun í atvinnulífinu. Þar er um ræða tvö verkefni. Annars vegar eru rannsóknir í fiskeldi og fiskalífeðlisfræði í tengslum við þorskeldi. Það samstarfsverkefni er einnig í samstarfi við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og fyrirtæki á Vestfjörðum. Fyrirtækin hafa fram til þessa lagt áherslu á áframeldi þorsks sem hefur skapað mikla þekkingu á þorskeldi og lagt grunn að eldi frá klakstærð sem nú verður þungamiðja rannsóknanna.

Hins vegar er um að ræða veiðarfærarannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar á Ísafirði sem eru rannsóknir sem verið hafa í nokkurri lægð um tíma. Það er sérstaklega við hæfi að veiðarfærarannsóknir og þróunarvinna verði tekin upp að nýju á Ísafirði enda er þar byggt á sérkennum og styrkleika atvinnulífsins á svæðinu auk þess sem þær eru vel fallnar til að efla atvinnulíf og styrkja búsetu í víðara samhengi. Þá er rétt að minna á að teknar hafa verið upp rannsóknir á snjóflóðum, snjóflóðavörnum, sem er annað verkefni sem hvergi á betur heima en á Vestfjörðum þar sem snjóflóðahættan er einna mest á landinu. Þetta er það sem ég vildi nefna í þessu sambandi og það mætti nefna fleira.