132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Atvinnumál á Ísafirði.

339. mál
[14:32]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það kom mér ekki á óvart að hv. þingmenn væru neikvæðir og kæmu með neikvæð innlegg og það er langt gengið þegar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er orðinn sá jákvæðasti í hópnum. Auðvitað vita hv. þingmenn það mjög vel að alltaf er verið að leita leiða til að styrkja atvinnulífið af hálfu ríkisvaldsins, en það er ekki eins og það sé einfalt mál. Við vitum dæmi þess víða á landsbyggðinni að nógir peningar eru í sjóðum og nóg af fyrirtækjum sem vilja styrkja atvinnulífið en engu að síður ganga peningarnir ekki út vegna þess að ekki eru fyrir hendi áhugaverð tækifæri til atvinnusköpunar. Þetta er ekki eingöngu spurning um fjármagn, það þurfa líka að vera áhugaverðir kostir í stöðunni. Við erum alltaf að leggja okkur fram um að svo verði, t.d. með því að efla nýsköpun — nú er fram undan sérstakt átak í þeim efnum — og fleira mætti telja. Hv. þingmenn tala um að það hafi verið neikvætt að selja Símann vegna landsbyggðarinnar. En það er síður en svo. Það er búinn til fjarskiptasjóður upp á 2,5 milljarða sem mun styrkja fjarskiptakerfið í landinu. Það er eins og þetta sé ekki þess virði að tala um það einu sinni. Að þingmaður Norðvesturkjördæmis leyfi sér að koma hér upp, Sigurjón Þórðarson, og tala um vaxtarsamning Vestfjarða sem eitthvert ómerkilegt plagg. Ég veit að Vestfirðingar eru eyðilagðir þegar þeir heyra þingmenn sína tala svona. (Gripið fram í.) Og ef hv. þingmenn Norðvesturkjördæmis halda að það sé mikilvægast fyrir þetta kjördæmi og fyrir þessi svæði að tala allt niður á svæðinu þá er það mikill misskilningur.

Í byggðaskýrslu, sem ég hef nýlega dreift í þinginu, kemur fram að á tímabilinu 1996–2000 fækkaði íbúum landsbyggðarinnar um 2.000, fjölgaði hins vegar um 1.500 á síðustu 4 árum sem ég hef verið byggðamálaráðherra.