133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:41]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Allt þetta kjörtímabil hafa ríkisstjórnarflokkarnir tveir hamast við að einkavæða þjónustu í almannaþágu og hafa þeir haft nokkurn árangur í þeim efnum þrátt fyrir mikinn mótbyr hér á þinginu og ég leyfi mér að fullyrða meðal þjóðarinnar einnig, sem má kannski sjá í fylgistapi Framsóknarflokksins í skoðanakönnunum um þessar mundir.

Í einu slíku máli hefur stjórnarandstaðan staðið af afli sameinuð gegn einkavæðingunni og það er í því máli sem nú kemur hér til atkvæða eftir 2. umr., þ.e. einkavæðing Ríkisútvarpsins.

Frú forseti. Ég hika ekki við að kalla þá aðför sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa stýrt gegn útvarpi allra landsmanna, Ríkisútvarpinu, einkavæðingu, enda er markmið flokkanna tveggja að koma Ríkisútvarpinu úr opinberri umsýslu, sem skilgreind er undir hatti opinbers réttar, í umhverfi sem er einkaréttarlegs eðlis. Eignarhald félagsins skiptir í því tilliti engu máli. Hér er lagt til að farið sé úr opinberum rétti í einkarétt, þar með er Ríkisútvarpið einkavætt.

Breytingarnar yrðu meiri. Það er gert ráð fyrir því að stjórn stofnunarinnar verði komið í hendur einum manni sem ráðinn verði pólitískri ráðningu af gervistjórn í umboði pólitísks meiri hluta á Alþingi. Einnig er gert ráð fyrir því að afnotagjöldin sem stærstur hluti þjóðarinnar greiðir með glöðu geði breytist í nefskatt sem gera má ráð fyrir að komi ójafnt niður á fólki. Þannig má gera ráð fyrir því að þeir sem hafa einungis tekjur í formi fjármagnstekna verði undanþegnir nefskattinum og barnmörgum fjölskyldum verði hann sérstaklega þungur. Þetta finnst Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki bara fínt, að ekki sé talað um réttindamál starfsmanna sem öll yrðu í uppnámi við þessar breytingar.

Frú forseti. Það hefur ríkt mikill ófriður um þetta mál í tvö ár samfleytt og honum er ekki lokið. Nú gerðum við stjórnarandstaðan á Alþingi samkomulag um það að 2. umr. gæti farið fram fyrir þinglok en við tryggðum það jafnframt að málið yrði tekið fyrir í menntamálanefnd að nýju á milli umræðna. Í trausti þess að þar fari fram áfram málefnaleg umræða um málið greiðum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs atkvæði á þennan hátt: Við munum greiða atkvæði gegn 1. gr. frumvarpsins. En við munum sitja hjá við aðrar tillögur í krafti þess að það verði enn hægt að snúa frá þessari vitlausu hugmynd sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa keyrt á af þvílíku offorsi síðustu tvö árin.