138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[21:37]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ástæða er til að taka undir með hæstv. ráðherra og fagna því að þetta frumvarp til laga um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ sé komið fram. Það rennir stoðum undir afskaplega mikilvægt verkefni sem markar nokkur tímamót í orkunýtingu og atvinnuuppbyggingu hér innan lands, þar sem um er að ræða fyrsta stóra gagnaverið sem verður byggt hér á Íslandi og má segja að þetta sé fordyrið að nýjum og umhverfisvænum hátækniiðnaði sem vonandi á eftir að verða ansi blómlegur á næstu missirum. Þetta er fyrsta stóra gagnaverið sem kemur til með að rísa hér og verður á gagnaverssvæði við Ásbrú í Reykjanesbæ, þar sem fyrirtækið keypti í upphafi verkefnisins tvær stórar vörugeymslur af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, Kadeco. Nú standa yfir breytingar á þessu húsnæði til að hýsa þar yfir 20.000 m2 tæknirými og nota, eins og fram kom í máli ráðherrans, 80–140 MW af raforku frá Landsnetinu til að knýja og kæla tölvubúnaðinn. Er talið að á því tímabili sem uppbyggingin stendur yfir muni hún skapa yfir 100 störf og annað eins eða rúmlega það í tengdum störfum og þjónustu. Síðan muni rúmlega 100 manns hafa störf að jafnaði við gagnaverið þegar það verður komið í fulla notkun eftir nokkur ár.

Hér er um að ræða merkilegt verkefni sem markar líka það að Ísland er orðið valkostur í uppbyggingu á gagnaverum og hefur þar með í hugum væntanlegra viðskiptavina og fjárfesta yfirstigið þröskulda varðandi meinta áhættu og rekstrarumhverfi hér á landi. Á síðustu missirum hafa stjórnvöld átt í viðræðum við nokkuð marga aðila sem hafa velt Íslandi fyrir sér sem uppbyggingarkosti fyrir gagnaver. Verne Holdings var þar fremst í flokki. Greenstone hefur verið að leita eftir staðsetningu og fjármögnun fyrir nokkur gagnaver og orkuöflun á nokkrum stöðum á landinu. Nú er í kortunum hjá því félagi að byggja ein fjögur gagnaver víðs vegar um landið. Þetta er kærkomin viðbót til að breikka flóru orkunýtingar hér á landi.

Auðvitað er mjög ánægjulegt að þetta mál um gagnaver í Reykjanesbæ skuli fara í gegnum Alþingi núna, þegar atvinnuleysi er mjög mikið og alvarlegt á þessu svæði og áhrifin af brotthvarfi varnarliðsins hafa komið fram af fullum krafti eftir að eignaþenslunni miklu lauk. Sem betur fer eru mjög mörg verkefni í kortunum akkúrat á þessu svæði og nýting á gamla varnarsvæðinu leikur þar að sjálfsögðu lykilhlutverk og þar er ýmislegt mjög jákvætt að gerast eða mun gerast á næstu mánuðum, eins og við vitum. Svo eru að sjálfsögðu áform um að byggja álver í Helguvík.

Alþingi samþykkti sambærilegan fjárfestingarsamning vegna álversins í Helguvík í aprílmánuði þetta sama ár. Sá samningur var grundvöllur þess að undirbúningur framkvæmda í Helguvík og tengdum orkumannvirkjum héldi áfram eftir hrun og erfiðleika innan lands. Að sama skapi markar þessi fjárfestingarsamningur um gagnaver í Reykjanesbæ rammann utan um það að þetta gagnaver verði að veruleika. Þrátt fyrir erfiðleika, áföll, gjaldeyrishöft og fleira hafa stjórnvöld unnið mjög náið með Verne Holdings alveg frá fyrsta degi, í gegnum kreppuna alla og áganginn í fyrravetur til að þetta verkefni gæti haldið áfram. Fjárfestingarsamningurinn er nauðsynleg forsenda þess að Verne gæti ráðist í næsta áfanga verkefnisins og hefur þessu verkefni því miðað hægt og þétt áfram og er nú komið í þann búning að vera hér í formi frumvarps um fjárfestingarsamning.

Hér er um að ræða mjög mikilvæga atvinnusköpun. Eins og ég nefndi áðan er þetta fyrsta stóra gagnaverið sem kemur til með að rísa á Íslandi og þá er fróðlegt að velta fyrir sér, eins og kemur ágætlega fram í mjög umfangsmikilli greinargerð og viðhengi og fylgiskjölum með frumvarpinu, hvernig staðarvali gagnavera er háttað og hvernig Ísland er metið í því ljósi og hvort Ísland sé hér með orðið að raunverulegum valkosti þegar kemur að því að byggja gagnaver eða netþjónabú, eins og þetta er oft kallað. Svarið við þeirri spurningu er nokkuð örugglega jákvætt, af því að eftir því sem eftirspurnin eftir orku til gagnaversiðnaðar eykst er fyrirsjáanlegt, eins og gefur augaleið, að kolefnislosun, útblástur koltvísýrings skiptir miklu máli. Þetta gagnaver mun hýsa fáa og stóra aðila sem þurfa að svara síaukinni notkun og eftirspurn eftir gögnum og rafrænni þjónustu frá neytendum og fyrirtækjum. Það hefur leitt til stöðugt vaxandi iðnaðar á undanförnum áratug sem nemur núna 15–25% vexti á hverju einasta ári. Þrátt fyrir núverandi ástand efnahagsmála í heiminum er búist við að gagnaverin stækki um 10–15% á árinu 2009.

Það sem hefur verið Íslandi mjög í vil á síðustu missirum er aukinn vilji til að nota fjarlæg gagnaver, aukin útvistun, uppbygging gagnavera og starfseminnar sjálfrar, hækkandi heildarkostnaður af því að eiga og reka sitt eigið gagnaver og þar með að vista þessa þjónustu út, umtalsverð aukning í orkunotkun gagnavera og meiri kostnaður vegna hennar, aukin áhersla á nýja tækni til að auka hagkvæmni gagnavera og vaxandi áhyggjur innan iðnaðarins vegna áhrifa væntanlegrar löggjafar um losun koltvísýrings á næstu árum.

En vaxandi orkuþörf gagnavera er nefnilega mjög markverð. Hún skýtur stoðum undir það að Ísland verði að raunverulegum valkosti til að hýsa nokkuð mörg gagnaver á næstu árum og breikkar þannig flóru orkunýtingarinnar, þannig að við byggjum hér orkufrekan iðnað eða hátækniiðnað sem hvílir á orkunotkun í öðrum mæli en álver. Í fyrsta lagi býr Ísland yfir einstökum orkulindum. Hér er græn orka á mjög stöðugu verði og eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan felst ókeypis kæling í hitastigi á landinu. En svo ég taki dæmi um vaxandi orkuþörf gagnavera þá áætlar orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna að gagnaver þar í landi noti 60 milljónir kwst. árlega, það kemur fram hér í fylgiskjali með frumvarpinu, sem jafngildir 2% af orkuframleiðslu landsins og ráðuneytið telur að orkunotkun gagnavera verði orðin 2,5% af heildinni árið 2011, þannig að þetta er gífurleg aukning. Þessi aukna notkun ásamt hækkandi orkuverði í heiminum, hefur leitt til stóraukins kostnaðar við rekstur á gagnaverum.

Þar sem Ísland hefur upp á að bjóða græna og stöðuga orku á ágætu verði, einstakar og miklar orkulindir í þessu samhengi, er landið klárlega orðið að ákjósanlegum stað fyrir gagnaver og sívaxandi eftirspurn verður eftir slíkri starfsemi á næstu missirum. Þess vegna markar þetta fyrsta stóra gagnaver á Íslandi mikil tímamót. Við vonum að nokkur önnur fylgi í kjölfarið og að Greenstone takist t.d. að koma starfsemi sinni sem allra fyrst á legg og að þetta leiði til þess að aðrir aðilar líti til Íslands og þessa svæðis hér ekki bara sem raunhæfs, heldur ákjósanlegs valkosts fyrir frekari uppbyggingu á gagnaverum og geri okkur þar með kleift að koma á næstu missirum sem allra mestri orku í notkun í þess háttar iðnað.

Þess vegna er ástæða til að óska ráðherra til hamingju með að þessi samningur sé kominn til Alþingis og vonandi gengur hann sem allra hraðast í gegn og fer í umsögn til ESA, eins og Helguvíkursamningurinn. En þegar sá samningur kom til baka þurfti að gera á honum minni háttar breytingar sem voru ræddar hér á þinginu fyrr í haust og eru nú í vinnslu hjá Alþingi og koma væntanlega frá iðnaðarnefnd í þessari viku. Gerð fjárfestingarsamninga er grundvöllur þess að verkefni með græna orkunotkun verði að veruleika.

Það er líka ánægjulegt, eins og við ræddum hér í umræðum um Helguvíkursamninginn fyrr í haust, að ráðherra vinnur nú að gerð rammalöggjafar um fjárfestingarsamninga, þannig að fyrirtæki og fjárfestar viti nákvæmlega að hverju skal ganga og að öll gerð slíkra samninga sé gagnsæ og opin og taki mið af þeim samningum sem við höfum unnið að á síðustu árum og Ísland sé þar með orðið ákjósanlegur valkostur fyrir fjárfesta sem vilja ráðast hér í margs konar iðnaðaruppbyggingu til að nýta þá grænu stöðugu orku sem við Íslendingar búum yfir.