138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[21:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég fagna því, eins og ég gerði hér í stuttu andsvari áðan, að þetta frumvarp er komið fram. Ég fagna því jafnframt að þetta gagnaver verði brátt reist og hefji starfsemi á Ásbrú í Reykjanesbæ. Þetta er mjög mikilvægt verkefni fyrir þetta samfélag sem við höfum ítrekað rætt um í þessum sal þar sem slæmar fréttir hafa yfirskyggt góðar fréttir, sérstaklega í atvinnumálum upp á síðkastið. Við þurfum ekki að orðlengja mikið um það atvinnuleysi sem er á því svæði. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hér fram með þetta mál en ég vil líka nota tækifærið í þessari stuttu ræðu og hrósa bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ fyrir aðkomu þeirra að þessu máli, fyrir elju þeirra og þann dugnað sem þau hafa sýnt í því að ná þessu verkefni til landsins. Þetta hefur verið samfelld vinna, samfellt verkefni bæjarfélagsins og sveitarfélaganna á Suðurnesjum, allt frá því að varnarliðið fór héðan árið 2006 og þau fóru að vinna með skipulögðum hætti eftir þeim samningi sem ríkisvaldið gerði við um þróunarfélagið Kadeco á þessu svæði. Hugmyndafræðin sem býr þar að baki virkar hér, ef svo má segja. Þarna er dregin inn á svæðið ný starfsemi sem notar þær byggingar og þá aðstöðu að miklu leyti sem fyrir hendi eru og um leið tekur hún með sér ný verkefni. Þá fjölgar atvinnutækifærum og verðmæti á þessu svæði aukast. Það er ákaflega jákvætt að það sé loksins orðið að veruleika og ég fagna því.

Ég fagna líka þeirri athugasemd sem hæstv. iðnaðarráðherra lét falla hér áðan um suðvesturlínur. Ég greindi þar skilning sem ég er sammála, suðvesturlínur eru mikilvægar fyrir þetta svæði, ekki bara vegna álversins í Helguvík heldur líka vegna afhendingaröryggis rafmagns á svæðið í heild sinni og til þess að geta farið í atvinnusköpun af þessu tagi. Eins og fram kom í máli ráðherrans mun hún nota 25 MW í upphafi en mun vonandi í framtíðinni ná að vaxa og dafna.

Ég fagna því orðum iðnaðarráðherra. Ég hvet hana til þess að beita áhrifum sínum við ríkisstjórnarborðið og standa nú við orð sín um að ryðja hindrunum úr vegi.

Ég treysti því og trúi að hæstv. ráðherra muni koma í lið með okkur sem höfum barist fyrir því að klára línuverkefnið. Og núna þegar fyrir liggur að komnar eru kærur varðandi þær vona ég að hæstv. ráðherra muni hvetja hæstv. umhverfisráðherra með okkur til að fara að stjórnsýslulögum, klára málið innan frests og jafnvel til að spýta nú svolítið í lófana til þess að þetta verkefni tefjist ekki vegna þeirrar ákvörðunar.

Hér kemur annar hæstv. ráðherra sem ég hvet til þess að koma með mér í lið og hvetja hæstv. umhverfisráðherra áfram til góðra verka.

Eins og fram kemur í frumvarpinu — ég verð að geta þess að mér finnst þetta frumvarp ákaflega fróðleg lesning, ekki bara samningurinn sjálfur, heldur líka þær upplýsingar sem lagðar eru fram og þau gögn sem því fylgja. Þau lýsa vel þeim samfélagslegu áhrifum sem verkefni af þessu tagi mun hafa á Suðurnesjum, á atvinnulíf, húsnæðismál, skipulagsmál, íbúaþróun, og svo mætti lengi telja. Það er augljóst að starfsemi af þessu tagi með þetta marga starfsmenn, bæði á uppbyggingartíma og einnig þegar það er komið í rekstur, hefur áhrif á ekki stærra svæði.

Hér var umræða áðan í andsvari milli hv. þm. Péturs Blöndals og hæstv. iðnaðarráðherra um samkeppnishæfni. Þau voru ekki alveg með sama skilninginn á því hversu samkeppnishæft Ísland væri í þessum málum og hvað við þyrftum að gera til þess að draga að fyrirtæki. Það rifjaði upp fyrir mér jómfrúrræðu mína hér á Alþingi sem ég flutti sumarið 2007, en þar fagnaði ég því að Alcan, álverið í Straumsvík, bað um að verða leyst undan fjárfestingarsamningi, sem það hafði gert 40 árum áður, vegna þess að skattumhverfi hér á landi væri orðið fyllilega samkeppnishæft. Fyrirtækið sá sér hag í því að vera í almenna skattkerfinu á Íslandi frekar en að vera gera sérsamninga. Þess vegna held ég að ég geti verið sammála bæði hv. þm. Pétri H. Blöndal og hæstv. iðnaðarráðherra.

Við stefnum öll að því að gera Ísland samkeppnisfært, ég trúi ekki öðru en það sé okkar sameiginlega markmið. Það hljómar kannski eins og ég vilji fara aftur til ársins 2007, en að mörgu leyti var ekkert leiðinlegt við árið 2007 þótt við séum farin að tala um það eins og það sé eitthvað mjög slæmt. Árið 2007 voru aðstæður þannig í skattumhverfinu á Íslandi að stórfyrirtæki, sem gat farið hvert sem er, sá sér hag í því að vera inni í almennu skattprósentunni á Íslandi.

Þess vegna finnst mér miður að gripið sé til þeirra aðgerða sem við munum ræða á næstu dögum, þ.e. að verið sé að hækka skatta og flækja skattkerfið, sem verður til þess að svona samningar verða gerðir áfram og það verður ekki hægt að koma í veg fyrir það. Hvort sem hæstv. ráðherra kallar það sértækan samning, eins og þann við erum að ræða hér, eða heildstæðan ívilnanapakka fyrir erlend fyrirtæki tel ég að það væri langbest ef þess þyrfti ekki. Best væri ef við værum með umhverfi sem gagnaðist bæði íslenskum og erlendum fyrirtækjum eins og að var stefnt, að við gætum keppt þannig og verið samkeppnisfær, en það er nú önnur saga.

Ég hvet hv. iðnaðarnefnd til að fara rækilega ofan í saumana á þessu. Maður getur ekki gert það í stuttri ræðu. Þetta er flókið og yfirgripsmikið þannig að ég treysti því að nefndin kynni sér þetta vel. Það er líka spurning og umhugsunarvert hvort hv. efnahags- og skattanefnd ætti að taka þetta mál til umfjöllunar, a.m.k. til að gefa álit á þeim atriðum er varða skattlagningu.

Ég ítreka að ég fagna því að þetta mál sé að verða að veruleika með þeim áhrifum sem það mun hafa á atvinnustarfsemi, ekki síst á Suðurnesjunum.