138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[22:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Til að draga þetta saman þá erum við sammála um það, ég og hæstv. ráðherra, að við viljum að íslenskt atvinnulíf sé samkeppnishæft. Um það erum við sammála. Ég held hins vegar að það sé dálítil hræsni fólgin í því að segja í öðru orðinu að grípa eigi til sömu aðgerða og önnur lönd og vera með ívilnandi aðgerðir til að laða fyrirtæki hingað, en með hinni hendinni fara svo að skattleggja það sem við erum samkeppnisfærust í, t.d. eins og orkuna sem verið er að skattleggja í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og við vorum að ræða hér áðan. Við eigum ekki að gera það, það er skýrt dæmi um það sem ég á við. Við eigum að láta það vera að skattleggja það svið og þær auðlindir þar sem við erum sannarlega samkeppnishæf við fyrirtæki, hvort sem þau eru í Kanada eða Svíþjóð eða annars staðar. Þegar fyrirtæki vega það og meta hvert þau eiga að fara taka þau marga hluti inn í myndina. Spurningin er: Þurfa þau mikla orku? Þurfa þau margt fólk? Þá fer það eftir því hvar orkan fæst á hagstæðu verði, hvar laun eru lægri og þetta vega fyrirtækin saman.

Þannig að ég held að það sé tvískinnungur að tala um að við þurfum að vera að búa til alls lags ívilnanir sem flækja og mismuna án þess þó að ég vilji útiloka að við getum notað eitthvað af því sem við höfum til þess að laða fyrirtæki að, nákvæmlega eins og við höfum verið að gera. Nákvæmlega eins og Fjárfestingarstofa, sem hæstv. utanríkisráðherra var að tala um hér áðan — það er verið að kynna og draga athyglina að þeim þáttum þar sem við erum samkeppnishæf. Með því að búa til almennt hagstætt skattumhverfi erum við (Forseti hringir.) að gera hlutina þannig úr garði (Forseti hringir.) að þegar fyrirtækin taka þessa hluti alla saman sjá þau að við erum (Forseti hringir.) samkeppnishæf og rúmlega það hér á Íslandi.