141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt að taka það fram í upphafi að (Gripið fram í.) ég held nú mína fyrstu ræðu um frumvarp til fjárlaga 2013. Ég nefni það í framhaldi af því sem hefur gengið á í fjölmiðlum um hegðun þingmanna ríkisstjórnarflokkanna. Það skal og upplýst að ég er varamaður Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd þannig að ég vona að það teljist ekki til hins svokallaða málþófs þó að ég tali hér við 2. umr.

Þar sem ég var búin að taka til máls við 1. umr. um fjárlögin, þennan mikla doðrant sem liggur fyrir þinginu, ætla ég aðallega að einbeita mér í þessari ræðu við 2. umr. að breytingartillögum sem komið hafa frá meiri hlutanum á milli umræðna. Það er mjög fróðlegt að lesa þær vegna þess að það átti að bæta verklag við fjárlagagerð. Það var eitt af meginmarkmiðum þessarar ríkisstjórnar, en nú hefur það komið fram að þetta er mjög ómarkvisst og enn þarf að flytja mikið fjármagn á milli liða, hér á milli umræðna, þannig að þetta tekur alltaf miklum breytingum.

Ég hef farið yfir það sem ég hef lagt áherslu á um forgangsraðanir í fyrri ræðum við 1. umr. og þá er ég meðal annars að tala um lögregluna, dómstólana og heilbrigðiskerfið. Ég ætla ekki að rifja það hér upp en ég sakna þess svo sannarlega í þessum breytingartillögum að finna ekki brýnar tillögur um stofnanasamninga hjúkrunarfræðinga. Nú eru hjúkrunarfræðingar í stórum stíl að segja upp og fá ekki einu sinn áheyrn hjá hæstv. forsætisráðherra. Hverjum hefði dottið það í hug um þann ágæta ráðherra áður en hún varð hæstv. forsætisráðherra að hún hlustaði ekki á það sem fjölmenn kvennastétt segði um launabætur? Svona getur þetta breyst. Ég ber enn þá von í brjósti að hæstv. forsætisráðherra veiti þessari fjölmennu kvennastétt áheyrn því að mikið misræmi hefur átt sér stað. Það er mikil synd að gripið hafi verið til uppsagna á Landspítalanum. Eins og við vitum eigum við frábært heilbrigðisstarfsfólk.

Umræðan er ekki búin og kannski er enn von. Ekki ætla ég að gefa upp vonina eins og ég sagði áðan því að það er alltaf möguleiki að ríkisstjórnin átti sig, sérstaklega í ljósi þess að hjúkrunarfræðingar fara fyrst og fremst fram með sanngjarna kröfu, að laun þeirra hækki til jafns við svipaðar starfsstéttir. Hafa þær til dæmis nefnt það að svipað menntaðir starfsmenn hjá Stjórnarráðinu hafa hækkað um tæp 23% svo það sé nú sagt. Það eru venjuleg skrifstofustörf en hjúkrunarfræðingar eru með líf sjúklinga í höndunum án þess að ég sé að metast fyrir hönd starfsstétta.

Það sem mig langar til að nefna um þetta nefndarálit frá meiri hluta fjárlaganefndar er að fjárlaganefnd telur að leitað hafi verið leiða til að festa í sessi forsendur ríkisfjármálastefnunnar sem fram komu í fjárlagafrumvarpinu með það að markmiði að hafa hér hallalausan ríkisrekstur árið 2014. Nefndin telur að ekki megi mikið út af bera svo það markmið náist.

Sumir hafa kallað þetta kosningafjárlög og ég get alveg tekið undir það. Það er svo einkennilegt með þessa ríkisstjórn að hún hefur fyrst og fremst gefið loforð fram í tímann, hún bindur næstu ríkisstjórn með fjárlögum og loforðum um alls konar stefnumörkun.

Ég ætla að taka dæmi um hvernig hún bindur framtíðarríkisstjórnir þessa lands. Hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, setti á stóriðjuskatt sem varð til þess að stóriðjan átti að greiða tekjuskatt fram í tímann allt til ársins 2018 til að koma til móts við íslenska ríkið þegar verst stóð á. Ég benti á það þegar þetta var til umræðu að þetta væri allt hið græna sem fyndist í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Þarna festi þáverandi formaður stóriðjuna enn frekar í sessi en kosningabaráttumál flokksins var að losna við alla stóriðju úr landinu. Þarna gat hann hins vegar leitað á náðir stóriðjunnar og látið hana greiða skatttekjur fyrir fram.

Þá benti ég á að þetta væri mjög einkennileg þróun vegna þess að með því að fyrir fram greiða skatttekjur væri jafnframt verið að hvetja fyrirtæki til að sýna ekki eins mikinn hagnað og áætlanir hljóðuðu upp á. Í ljósi þess að það var ákvæði í þeim samningum sem ríkisstjórnin gerði um að ef fyrirtæki skiluðu ekki eins miklum skatti í ríkissjóð og áætlað var yrði fyrirtækjunum heimilt að sækja það í ríkissjóð sem upp á vantaði með vöxtum.

Sem betur fer hefur þróun álverðs verið á þann hátt að ekki þurfti að koma til þessa. Þetta eru vel rekin fyrirtæki hér á landi og mjög gjaldeyrisskapandi. Sem betur fer eru þau í góðum rekstri þó að ríkisstjórnin hafi reynt að setja sem flesta steina í götu þeirra. Svo vita allir umræðuna um það að ríkisstjórnin ætlar ekki að standa við samninginn um raforkuverðið og skattlagningu til framtíðar varðandi þessi fyrirtæki.

Hin lamandi hönd ríkisstjórnarinnar liggur allt um kring. Þetta er ekki eina atvinnugreinin sem ríkisstjórnin hefur ráðist á. Við vitum hvaða stefnu á að taka í fiskveiðistjórnarkerfinu. Við vitum hvaða stefnu er búið að taka í ferðaþjónustunni varðandi virðisaukaskattinn fyrir utan allar aðrar hækkanir sem leggjast á vörur og þjónustu. Þetta er hin lamandi hönd þessarar ríkisstjórnar og þess vegna er mjög merkilegt að sjá hvaða rök meiri hluti fjárlaganefndar notar í þessu nefndaráliti. Meiri hlutinn telur að þróun frumjafnaðar án óreglulegra tekna og gjalda sé jákvæð í frumvarpinu og slær þann varnagla að þessi frumjöfnuður verði jákvæður ef ekki koma til frekari áföll sem rekja má til afleiðinga bankahrunsins.

Virðulegi forseti. Það að þetta skuli vera komið inn í nefndarálitið bendir til þess að ríkisstjórnin átti sig ekki á því að hún er búin að starfa í næstum fjögur ár. Hér er enn verið að nota sem rök inn í umræðuna og í nefndarálit að þess sé að vænta að ríkissjóður verði rekinn hallalaus ef ekki koma til fleiri áföll í sambandi við bankahrunið. Það er eins og ríkisstjórnin átti sig ekki á því að hún er búin að halda um stjórnartaumana öll þessi ár. Hér varð bankahrun í október 2008. Nú er kominn desember 2012. Ríkisstjórnin hefur haldið um stjórnartaumana síðan. Þessi ríkisstjórn ákvað að dæla peningum inn í sparisjóðakerfið. Þessi ríkisstjórn tók ákvörðun um að dæla peningum inn í Sjóvá – Almennar sem dæmi. Þessi ríkisstjórn hefur gert afar mörg mistök sem eru ekki bankahruninu að kenna.

Tökum annað dæmi út af því að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson fór yfir Íbúðalánasjóð áðan. Hefði leið framsóknarmanna verið farin hér strax á vormánuðum 2009 með 20% niðurfellingu allra skulda værum við í öðrum sporum. Þá hefðu hjól atvinnulífsins farið að snúast. Þá hefði hagvöxtur aukist. Þá hefðu heimilin haft langtum meiri ráðstöfunartekjur til að keyra neysluna af stað aftur. Það var ekki gert. Nú virðist eins og Íbúðalánasjóður sé að sogast niður með heimilunum vegna þess að ekki var brugðist við á réttan hátt af þessari vinstri velferðarríkisstjórn. Til dæmis var ekki farið að tillögum aðila í samfélaginu um að afnema vísitölutengingar lána Íbúðalánasjóðs strax eftir hrunið. Hvað sitjum við uppi með? Nú þarf ríkið að leggja fleiri tugi milljarða inn í Íbúðalánasjóð vegna mistaka þessarar ríkisstjórnar. Svo segja hæstv. ráðherrar: Hér varð hrun.

Virðulegi forseti. Hvenær rennur upp sá dagur að þessi ríkisstjórn líti til fyrningartíma hrunsins og fari að horfast í augu við það að megnið af þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir í dag er þessari ríkisstjórn að kenna? Það er þessi ríkisstjórn sem verður dæmd af verkum sínum vegna þess til hvaða ráða var gripið til að leysa úr málum eftir hrunið.

Við skulum heldur ekki gleyma því að hæstv. fjármálaráðherra einkavæddi bankana á einni nóttu, einkavæddi bankana í annað sinn án þess að spyrja kóng eða prest. Hann lagði ekki þá ákvörðun fyrir þingið. Þar með afhenti hann erlendum vogunarsjóðum skuldasöfn íslenskra heimila. Þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, tók þá ákvörðun að taka 280 milljarða kr. skuldabréf í erlendri mynt og færa yfir í nýja Landsbankann þegar verið var að semja með hinni hendinni um Icesave-skuldina sem átti að setja á herðar íslensku þjóðarinnar. Nú stöndum við frammi fyrir því að Landsbankinn getur tæpast staðið undir þessum greiðslum. Það hefur komið fram í fréttum. Hvað gerist ef Landsbankinn á ekki gjaldeyri til að greiða af þessu skuldabréfi sem þáverandi hæstv. fjármálaráðherra tók sisvona á einni nóttu? Það lendir þá á ríkissjóði því að Landsbankinn er banki landsmanna.

Þetta er ekki hægt að rekja til hrunsins. Þetta er hægt að rekja til einhliða ákvarðana þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Á þetta þurfum við að varpa ljósi. Við erum að reyna að benda á það sem miður hefur farið hjá þessari ríkisstjórn, en hún á eitt svar við því, virðulegi forseti: Þetta er allt öðrum flokkum að kenna og þetta er allt hruninu að kenna. Þetta er mótsögn. Ég verð að minnast á kosningabaráttuna sem var rekin 2009. Þegar spurt var hvað vinstri flokkarnir ætluðu að gera, hvernig þeir ætluðu að slá upp skjaldborginni um heimilin og byggja velferðarbrúna sem þeir lofuðu fyrir kosningar var sagt á kosningafundum: Við þurfum ekki að útskýra það neitt meir, heilög Jóhanna sér um það.

Og við sjáum hvert hæstv. forsætisráðherra er komin og hvað hún hefur lagt á landsmenn þau ár sem hún hefur starfað sem forsætisráðherra. Enginn vilji er til þess að afnema hér verðtryggingu, enginn vilji til þess að koma skuldugum heimilum til hjálpar, enginn vilji einu sinni til að standa vörð um jafnréttið, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur alltaf verið talsmaður fyrir. Svona má lengi telja.

Þar sem ég hef þetta nefndarálit fyrir framan mig langar mig aðeins til að grípa ofan í það aftur. Það er gert ráð fyrir hærri arðgreiðslum nú en í frumvarpinu sjálfu og þá er talað um áætlaðan arð Landsbanka Íslands. Nú ætlar ríkisstjórnin að taka arð af Landsbankanum jafnvel þó að bankinn sé ekki greiðslufær með þetta erlenda skuldabréf sem ég talaði um áðan. Ég tel mjög alvarlegt að ríkisstjórnin sé raunverulega að fara fram á að Landsbankinn greiði arð á meðan hann stendur ekki í skilum.

En gott og vel, það á að hækka skatta á tekjur. Það er áætlað að skattarnir á tekjurnar hækki um 4,8 milljarða. Svo á hagnaður af eignasölu samkvæmt þessu nefndaráliti að vera 1,5 milljörðum kr. lægri en í frumvarpinu þannig að það er verið að færa þarna fram til hækkunar og lækkunar. Svo er það alveg ótrúlegt sem birtist í þessu nefndaráliti sem er vert að fara yfir í þessari umræðu, þessi gæluverkefni sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Hér er til dæmis lögð til hækkun upp á 500 milljónir sem stofnframlag til stofnunar græns fjárfestingarsjóðs. Það er alveg hreint með ólíkindum með þessa grænu fjárfestingu sem kemur fram í frumvarpinu vegna þess að það var samþykkt einhver þingsályktunartillaga um græna hagkerfið. Ég studdi hana á sínum tíma en mér blöskrar að sjá alla þá fjármuni sem fara í það. Þetta er að mínu mati gæluverkefni vegna þess að það er verið að dæla svo miklum peningum inn í þetta eins og líka ýmis verkefni sem græna hagkerfið á að standa undir. Það er gerð tillaga um 280 millj. kr. framlag til að standa undir ýmsum verkefnum sem ráðgerð eru samkvæmt þessari þingsályktun um græna hagkerfið og ríkisstjórnin samþykkti í fjárfestingaráætlun sinni í maí síðastliðnum og á að taka gildi þegar þessi ríkisstjórn er farin frá, 2013–2015. Það er verið að binda ríkisstjórnir framtíðarinnar. Það eiga að fara í það tæpir 4 milljarðar á þessum árum. Þetta er upptakturinn að því.

Þess vegna velti ég fyrir mér, virðulegi forseti, síðan hvenær ríkisstjórn hafi getað bundið stefnu sína niður á þann hátt að það sé hægt að binda hendur komandi kynslóða. Þetta er enginn rekstrarkostnaður. Það er ekki verið að leggja fjármagn í spítalana. Það er ekki verið að leggja fjármagn í launakostnað opinberra starfsmanna eða neitt þess háttar. Nei, það er verið að fara af stað núna með þessi kosningafjárlög og binda fleiri milljarða til framtíðar. Mér finnst þetta mjög einkennilegt. Ef það kemur til þess að það þurfi að skera mikið niður í ríkisútgjöldum næstu ára hljóta þessi verkefni að fjúka fyrst út af borðinu hjá nýrri ríkisstjórn, gæluverkefni þessarar stjórnar. Þó að við þurfum að huga að umhverfismálum, og ég er mikill talsmaður umhverfisins og þess að við notum náttúruna af skynsemi og í sátt við sjálfa sig, er ekki hægt að vera með slík gæluverkefni þegar þúsundir Íslendinga ganga um án atvinnu. Fólk hugsar um það eitt að fá vinnu, ekki hvort það séu einhver græn störf sem skapast, því síður hvort það sé einhver græn fjárfestingaráætlun.

Manni er hætt að koma neitt á óvart sem þessi ríkisstjórn tekur upp á. Varðandi grænu áherslurnar er á bls. 22 í þessu nefndaráliti gert ráð fyrir 50 millj. kr. beinu framlagi úr ríkissjóði til að auka fjárveitingar til Íslandsstofu vegna greiningar og markaðskynningar á grænum erlendum fjárfestingum hér á landi.

Virðulegi forseti. Við framleiðum grænustu orku í heimi. Við búum á eyju. Landið er mjög hreint. Við þurfum ekki að fást við kjarnorkuúrgang eða geislaúrgang. Hvers vegna þarf að leggja aukalega til 50 millj. kr. til þess að kynna Ísland sem grænan fjárfestingarkost? Það vita allir, virðulegi forseti, yfir hvaða gæðum við búum. Ég hef til dæmis verið óþreytandi að tala um það.

Áætlað er að öll þessi grænu verkefni verði fjármögnuð með annars vegar sérstakri tekjuöflun af veiðigjaldi á auðlindaarð sjávarútvegsins og hins vegar með tekjum af arðgreiðslum og söluhagnaði af eignasölu. Þetta er skrýtin fjármögunarhugmynd því að sjávarútvegsmálin eru öll upp í loft og mér skilst að það hafi náðst með hörku í þingflokki Samfylkingar í dag að koma einu fiskveiðistjórnarfrumvarpinu út úr þingflokknum. Hvers lags ríkisbókhald er þetta? Það er áætlað að setja inn í ríkisreksturinn gjöld sem ekki er eign fyrir á móti, framtíðararð í fiskveiðiauðlindinni og svo hugsanlega framtíðareignasölu. Þetta er ekki góð hagfræði, virðulegi forseti, og það er alveg dæmalaust að það skuli vera farið fram með þessum hætti.

Eins og ég sagði áðan kemur manni fátt orðið á óvart. Hér er til dæmis gott að minnast aðeins á að það er verið að leggja 10 millj. kr. til aðalskrifstofu forsætisráðuneytisins. Þetta er ekkert rosalega há upphæð, en það á að grípa til þessara 10 millj. kr. vegna þess að ráðherranefnd um atvinnumál ætlar að fjalla um stuðning er lýtur að atvinnuuppbyggingu og fjölgun vistvænna starfa og ákvörðun um ráðstöfun þessa fjármagns. Það er verið að búa til í þessu fjárlagafrumvarpi 2013, frumvarpinu sjálfu og þessum breytingartillögum, ægilegan kratisma og kerfisbákn. Eins og ég hef bent á fer varla nokkurt frumvarp í gegnum þingið án mikils kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, helst með fjölgun opinberra starfa og miklum fjárútlátum.

Nú ætla ég að benda á hvað það er há upphæð í þessum breytingartillögum við frumvarp til fjárlaga 2013 sem fer í veiðigjaldsnefndina og Fiskistofu vegna breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það er gerð tillaga um 30 millj. kr. fjárheimild vegna starfa veiðigjaldsnefndar. Um nýja nefnd er að ræða sem sett er á laggirnar samkvæmt lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012, og nefndinni er ætlað að ákveða sérstakt veiðigjald og gera tillögur um lækkun þess eða undanþágu frá greiðsluskyldu. Þarna eru 30 milljónir komnar í þessa veiðigjaldsnefnd sem rekja má beint til breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og að auki er lagt til að 40 millj. kr. fari til að standa undir kostnaði Fiskistofu við aukna og umfangsmikla umsýslu við álagningu og innheimtu veiðigjalda í samræmi við kostnaðarmat sem fylgdi frumvarpi til laga um veiðigjöld sem lagt var fyrir Alþingi í mars síðastliðnum. Þarna erum við komin með 70 milljónir sem þarf að koma inn milli 1. og 2. umr. og lúta beint að útaustri úr ríkissjóði vegna þess veiðigjaldafrumvarps sem varð að lögum í júní.

Ég spyr: Er ekki hægt að hafa kerfið einfaldara? Á bls. 23 í nefndarálitinu kemur fram, með leyfi forseta:

„Í meðförum þingsins“ — um frumvarpið sem varð að lögum nr. 74/2012 — „voru gerðar breytingar á frumvarpinu sem leggja flókna vinnu og utanumhald á starfsmenn Fiskistofu við útreikning á rétti einstakra aðila til að fá veiðigjald lækkað vegna vaxtakostnaðar þeirra við kaup á aflahlutdeild fyrir gildistöku laganna. Í þessari tillögu er ekki tekið tillit til hugsanlegs viðbótarkostnaðar Fiskistofu sem rekja má til breytinga þingsins.“

Þetta höfum við framsóknarmenn alltaf talað um, að hafa gjaldakerfið og skattkerfið sem einfaldast þannig að það rúlli sem best í íslensku samfélagi og að ekki sé flókið að innheimta skattinn og gjöldin eftir því. Við viljum hafa fáa skatta og hafa sem styst bil milli prósentutalna en ekki búa til flókin skatt- eða gjaldakerfi í kerfinu sjálfu. Hér sést það, ef þetta verður framkvæmt og nær í gegn, náttúrlega er veiðigjaldið komið á, kostar á þessu ári 70 milljónir að innheimta þetta veiðigjald. Þetta er alveg ótrúlegt, það hefði alveg verið hægt að fara með þetta einfaldari leiðir.

Mig langar aðeins að fara yfir það sem lagt er til um utanríkisráðuneytið. Ég hef bent á það í fjárlagaumræðu liðinna ára að ríkissjóður hafi lánað Evrópusambandinu fjármagn til skamms tíma á meðan ekki var búið að samþykkja IPA-styrkina. Ég lagði fram fyrirspurnir til að fá fram á hvaða lagagrunni það fjármagn byggði sem fór til Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins. Það var ekki hægt að svara því, það var alltaf vísað í fjárlög komandi ára til að fá lagaheimild fyrir útgreiðslunni sem átti sér stað.

IPA-styrkirnir voru ekki samþykktir fyrr en á vorþingi, rétt fyrir þinglok í vor, og þá upphófst mikil endurgreiðsla út úr ríkissjóði. Þá var búið að taka þessa IPA-styrki debetmegin inn á ríkisreikning. Þetta er mjög óeðlilegt og það var aldrei borið undir þingið út af hverju ríkissjóður lánaði Evrópusambandinu fjármagn með þessum hætti. Það á að breyta hér lið 03-111. Það er gert ráð fyrir að 128 millj. kr. tímabundin fjárheimild verði til að ráðstafa styrk frá Evrópusambandinu vegna þýðingaverkefna. Á móti fjárheimild samkvæmt þessari tillögu er gert ráð fyrir óafturkræfum styrk til íslenska ríkisins frá Evrópusambandinu sem færist á tekjuhlið og hefur verkefnið að þessu leyti ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs. Það kemur þarna inn á móti.

Þarna sé ég það í fyrsta sinn fullyrt að IPA-styrkirnir séu ekki afturkræfir. Ég gerði mikla hríð að hæstv. utanríkisráðherra hér á sínum tíma til að fá fram hvað hann hefði í höndunum um að við þyrftum ekki að endurgreiða þá 5 milljarða sem Evrópusambandið dældi yfir íslenska þjóð þegar þjóðin segir nei við aðild að Evrópusambandinu.

Það hefur aldrei reynt á það hjá neinu umsóknarríki. Þess vegna telur hæstv. utanríkisráðherra þetta óafturkræfa styrki, en eins og ég hef bent á er klásúla í þessu IPA-styrkjafrumvarpi og þingsályktunartillögu sem fylgdi því sem getur leitt það af sér að við þurfum að greiða þessa styrki til baka þegar við segjum nei. Blinda augað er hins vegar látið horfa á það og engum rökum tekið er að því snúa en við skulum vona hið besta.

Svo kemur fram í nefndarálitinu viðurkenning á því sem ég var að segja, með leyfi forseta:

„Í fjárlögum fyrir árið 2010 veitti Alþingi tímabundið 180 millj. kr. framlag í þrjú ár vegna þessara verkefna, eða samtals 540 millj. kr. Sú fjárveiting verður að hluta til mótframlag Íslands á móti stuðningi Evrópusambandsins við bæði þetta og önnur verkefni í stofnanahluta IPA-áætlunarinnar.“

Þarna er viðurkennt að íslenska ríkið lánaði Evrópusambandinu sem nemur um það bil hálfum milljarði í Þýðingamiðstöðina, en eins og kemur fram fást ekki bara styrkirnir og gleðin með því að taka á móti IPA-styrkjunum, íslenska ríkið þarf alltaf að leggja fram mótframlag. Þetta hefur lítið verið rætt og því er helst haldið að nokkru leyti leyndu vegna þess að ríkisstjórninni þykir óheppilegt að þurfa að viðurkenna að íslenska ríkið þurfi að koma með mótframlag.

Í þessum texta kemur fram að fyrirframgreiðsla íslenska ríkisins er 540 millj. kr. sem íslenska ríkið lánaði Evrópusambandinu vegna þessara IPA-styrkja, en það á ekki að færa þetta aftur til baka á kredithlið heldur er litið svo á að þetta sé mótframlag íslenska ríkisins vegna hinna ýmsu IPA-styrkja.

Þetta er alvarlegt og mér finnst líka mjög sérstakt að þetta skuli ekki vera í frumvarpinu sjálfu heldur þurfi að koma hér á milli umræðna í formi breytingartillögu. Hef ég svo sem ekki fengið neina staðfestingu á því hvers vegna það er. Það er eins og þetta hafi gleymst eða á einhvern hátt farið fram hjá fólki.

Svo er liðurinn Ýmis verkefni hjá utanríkisráðuneytinu. Það er alltaf verið að telja okkur trú um að það kosti ekkert að vera í aðlögunarferli að sambandinu, þetta sé allt meira og minna borgað af sambandinu sjálfu og þetta sé ekkert svo mikill kostnaður. Þótt þetta dragist á þetta ekkert að vera svo flókið eða dýrt. Hér er samt sem áður, virðulegi forseti, lögð fram tillaga um að bæta við 40 milljónum frá því að frumvarpið var lagt fram. Það kemur fram í frumvarpinu að það voru 50 milljónir fyrir og hér er farið fram á 40 millj. kr. í viðbót, samtals 90 millj. kr. fjárveitingu vegna viðræðnanna við Evrópusambandið.

Það er alveg með ólíkindum hvað þetta er farið að kosta íslenska þjóð. Þarna liggja 90 milljónir bara á árinu 2013 í þessum fjárlagalið. Það merkilega er að hér er fyrst um að ræða kostnað vegna samninganefnda, ferðalaga og sérfræðiþjónustu. Það er einhverjum til hagsbóta að láta viðræðurnar dragast á langinn, ef þessu verður haldið áfram næstu ár fara óheyrilegir peningar út úr ríkissjóði í þessa vitleysu. Allir vita að þessi för er tilgangslaus. Það besta sem þessi ríkisstjórn gæti lagt til fyrir kosningar væri að taka fyrir þingsályktunartillögu mína um að það fari í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða kosningunum hvort Íslendingar eigi að halda áfram með þessar aðlögunarviðræður eða ekki. Hér er keyrt blint fram af brúninni, mokað fé í Evrópusambandsumsóknina á meðan ekki er hægt að kaupa tæki á Landspítalann og verið er að skera lögregluna svo mikið niður að hún getur vart sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Svo mætti lengi telja í grunnþjónustunni. Þess vegna er sorglegt að horfa upp á það, virðulegi forseti, hvernig farið er með almennt skattfé.

Það er margt sem má bæta. Ég ætla að hrósa meiri hluta fjárlaganefndar að einu leyti því að hér eru líka breytingartillögur til bóta. Ég ætla sérstaklega að taka út úr þessu það sem snýr að Íslenskri ættleiðingu. Hér á að bæta við 25 millj. kr. samkvæmt þessari breytingartillögu þannig að heildarfjárveiting til Íslenskrar ættleiðingar verður 34 milljónir á þessu ári. Það er búið að skera svo mikið niður til þessa málaflokks að til vandræða horfir en þarna hefur fengist áheyrn. Það væri óskandi að ríkisstjórnin væri líka það framsýn að það hefði verið lagt til að halda áfram að niðurgreiða glasafrjóvganir svo ég taki eitt dæmi. Við þurfum á því að halda að fjölga okkur hér á landi og það er meðal grundvallarmannréttinda, mundi ég halda, að foreldrar geti eignast börn og þá er náttúrlega, eins og allir vita, glasafrjóvgun einn þáttur í því.

Við tökum vonandi á því þegar þessi ríkisstjórn er farin frá. Þetta er meðal þeirra mannréttindamála sem við þurfum að setja á oddinn í framtíðinni. Síðast í gær var frétt um niðurskurð vegna glasafrjóvgana og var þar vísað til nágrannaríkjanna og hvernig þar er staðinn vörður um þessi mál.

Eins og ég segi, virðulegi forseti, er sorglegt að sjá svona þjóðþrifamál falla í gleymsku og dá og rykfalla hjá þessari ríkisstjórn þegar peningum er sóað í alls konar gæluverkefni eins og þetta græna hagkerfi sem ég fór yfir og þessa grænu fjárfestingarstefnu, svo við tölum ekki um þessa ESB-umsókn.

Það er líka skrýtið að skoða breytingartillögurnar um mennta- og menningarmál. Ég uppgötvaði áðan að Íslendingar eru mjög rausnarlegir varðandi menningarmálin. Auðvitað eigum við að halda í okkar arf og hafa hér öflugt menningarlíf, en ég tel að forgangsröðunin verði að vera sú að fólk haldi fyrst og fremst heilsu og geti átt í sig og á. Við verðum að eiga góðar menntastofnanir áður en við förum að eyða miklu fé í hin ýmsu menningarverkefni. Ég verð líklega gagnrýnd fyrir þetta en þetta er lífsskoðun mín, virðulegi forseti, ég hef ætíð sagt að mér finnst þessi ríkisstjórn ekki forgangsraða rétt. Röng verkefni eru tekin fram yfir brýn verkefni. Þessu verðum við að breyta eftir næstu kosningar. Við þurfum að taka til í ríkisrekstrinum fyrst og fremst og skera niður óþarfaverkefni sem liggja úti um allt. Þegar illa árar í ríkisrekstri verður, eins og í heimilisrekstri, að forgangsraða á réttan hátt til að nauðsynlegir hlutir hafi forgang og svo er hægt að raða afþreyingarefni síðar. Fyrst og fremst verðum við að hafa tekjur til að standa undir því öllu.

Virðulegi forseti. Ég hugsa að ég láti þetta duga í þessari ræðu. Ég tel þessar breytingartillögur að nokkru leyti til bóta. Hér er kallað mjög eftir því hvers vegna stjórnarandstaðan kemur ekki með breytingartillögur, það var hrópað á torgum á föstudaginn að við værum í málþófi, hefðum engar breytingartillögur og hefðum ekkert til málanna að leggja. Ég hafna þessu tvennu. Hér á sér ekki stað málþóf eins og ég fór yfir þegar ég byrjaði ræðuna. Þetta er mín fyrsta ræða og ég er varamaður Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd.

Í öðru lagi teljum við ekki skynsamlegt að koma með breytingartillögur við þetta fjárlagafrumvarp því að fjárlög eru alltaf á ábyrgð hverrar ríkisstjórnar fyrir sig. Við höfum komið með breytingartillögur undanfarin þrjú ár. Þær hafa ekki verið teknar til greina, ekki ein einasta breytingartillaga, þannig að nú skal ríkisstjórnin sitja uppi með þetta ógöngumál. Hvernig þessi fjárlög verða afgreidd kemur í ljós síðar, en svo virðist sem ekki sé meiri hluti fyrir ákveðnum þáttum í frumvarpinu miðað við umræður liðinna daga. Það á eftir að koma í ljós.

Virðulegi forseti. Á hátíðarstundum er talað um samvinnu og sanngirni og að allir eigi að vinna saman. Þegar ekki er haft samráð eða á nokkurn hlut komið til móts við tillögur okkar í stjórnarandstöðunni vitum við að ekki þýðir að leggja fram breytingartillögur eða semja um nokkurn hlut til lækkunar eða hækkunar í þessum fjárlögum. Það gefur augaleið, virðulegi forseti, og þess vegna komum við til með að vinna þessi mál fyrst og fremst fyrir okkar flokksþing þjóðinni til heilla og leggja þau svo hér fram næsta vetur.