141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Já, þegar rýnt er í málið hefur það nú sannast að um aðlögunarferli er að ræða en ekki venjulegt umsóknarferli. Ég tek undir það að hér er raunverulega verið að fara fram með sjónarspil, sérstaklega vegna þess að þetta er dulið hér og þar í fjárlagafrumvarpi og fjáraukalögum.

Annað sem mig langar til að benda á er að þarna eru komnar inn 540 millj. kr., tæpur hálfur milljarður, en svo er talið upp hvað umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu kostar raunverulega í peningum fyrir ríkissjóð, þar með talið er kostnaður vegna samninganefnda, ferðalaga og sérfræðiþjónustu. Árið 2010 fóru inn á fjárlög 250 millj. kr., 2011 150 millj. kr., 2012 140 millj. kr. og nú 2013 50 millj. kr. Ríkissjóður hefur lagt samtals 590 millj. kr. í málið í gegnum fjárlög frá árinu 2010. Það eru himinháar upphæðir og þegar það er lagt saman við mótframlag Íslands vegna IPA-styrkjanna sem ég fór yfir áðan erum við að tala um rúman milljarð.

Hv. þingmaður sagði að fjárvöntunarþörf væri mjög víða; í löggæslumálum, í heilbrigðisþjónustunni og öðru. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Eru það ekki óheyrilega háar fjárhæðir til Evrópusambandsmála sem birtast í fjárlagafrumvarpinu þegar litið er til hinnar röngu forgangsröðunar sem er hjá ríkisstjórninni? Sannast ekki enn og aftur að betra hefði verið að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en umsóknin var sett af stað, því að bara þessir tveir liðir losa rúman milljarð?