141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Hv. þingmaður fjallaði um Seðlabankann og mig langar að ræða ákveðna þætti tengda honum við hv. þingmann.

Í minnihlutaáliti sem hv. þingmaður skrifar undir er meðal annars vitnað til nýjasta heftis Peningamála þar sem Seðlabankinn varar við áhrifum útgjaldaþrýstings vegna þeirra tillagna sem liggja fyrir, m.a. tillagna meiri hluta fjárlaganefndar og þeirra sem fjárlagafrumvarpið felur í sér. Það á meðal annars að fjármagna þetta með arðgreiðslum úr Landsbankanum og á sama tíma erum við að tala um að ríkissjóður beri vaxtakostnað upp á tugi milljarða. Í öllum atvinnurekstri er ekkert að því að taka lán til að fjármagna ákveðna þætti ef það skilar meiri tekjum, þ.e. ef fjárfestingar skila meiri tekjum en vextirnir sem lánin bera er það af hinu góða. Maður veltir því fyrir sér þegar þessar tillögur eru skoðaðar því að í ríkisrekstri á það sama að gilda. Vissulega eru ákveðnir grunnþættir samfélagsins, eins og menntamál, löggæslumál, heilbrigðismál o.s.frv., en þegar kemur að öðrum verkefnum sem eru þar fyrir utan, er hv. þingmaður þá ekki sammála mér um það að við eigum að hugsa þetta þannig að ef við tökum peninga að láni og þurfum að greiða fyrir þá vexti verður það að skila okkur meiru til baka? Telur hv. þingmaður að þær tillögur sem við erum að ræða frá meiri hluta fjárlaganefndar uppfylli þau skilyrði að þeir vextir sem við greiðum af lánunum verði til þess að við náum meiri tekjum inn í ríkissjóð?