144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:44]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað um Háskólann á Akureyri. Það er dapurlegt þegar rektor kemur í viðtal í blöðum og segir: Eru það skilaboðin, á ég sem sagt að fara fram úr og þá fæ ég það bætt?

Það er mikið ójafnræði í þessari úthlutun og þrátt fyrir að reynt hafi verið að sýna fram á eitthvert réttlæti í henni með einhverjum útreikningatvisti gengur það ekki upp í hugum okkar sem höfum fjallað um málefni skólans. Þetta kemur niður á rannsóknarmissirunum, það er alveg klárt mál. Ég eins og fleiri hvet hv. þingmann og formann fjárlaganefndar, Vigdísi Hauksdóttur, til að breyta þeirri skýringu sem fylgir þessum lið. Það er beiðni háskólans um að leyfa honum að ráðstafa framlaginu í rannsóknarmissiri eins og tillagan var í upphafi. Ég veit ekki alveg af hverju þessi skýring kom inn eða á hvaða forsendum, vegna þess að um hana hefur ekki verið beðið og hún ekki heldur rædd. Ég hvet til þess að þessu verði (Forseti hringir.) breytt á milli umræðna.