144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt, sem hér kom fram, að ég gerði tilraun til að sameina þennan skóla Háskóla Íslands og það gekk ekki fram. Það kallar á nýja nálgun á þann vanda sem augljóslega er uppi hjá þessari skólastofnun, m.a. vegna smæðar hennar.

Ég vil nota tækifærið og greina þingheimi frá því að nú stendur yfir í mínu ráðuneyti heildarúttekt og vinna og mat á háskólakerfinu, m.a. til þess að setja það í alþjóðlegt samhengi og skoða um leið stöðu einstakra skóla og leita leiða til að tryggja stöðu þeirra og efla þær rannsóknir sem þar fara fram.

Ég vil einnig vekja athygli á því að í þeim tillögum sem hér eru ræddar er gert ráð fyrir því að mjög myndarlegt framlag fari til rannsókna háskóla í þágu landbúnaðar, um það bil 55 milljónir sem ættu þá að nýtast mjög vel til rannsókna akkúrat á þessu sviði og þar með því skóla- og rannsóknastarfi sem fer fram á Hvanneyri.