144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:46]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Á árinu 2009 var skorið niður til Ríkisútvarpsins. Í kjölfarið voru hinar svæðisbundnu útsendingar lagðar niður sem við sem vorum þá í stjórnarandstöðu gagnrýndum harkalega. Á þeim tíma lögðum við til að bætt yrði í útgjöld til Ríkisútvarpsins. Þeir sem nú sitja í stjórnarandstöðu höfnuðu þeirri tillögu. Það fór líka fram umræða um að hinar svokölluðu mörkuðu tekjur mundu ekki renna óskiptar, ekki bara til Ríkisútvarpsins heldur líka til fjölmargra annarra stofnana sem eru í svipuðum sporum. Þessi umræða fór fram í fjárlaganefnd síðasta kjörtímabils. Ég ætla mér að segja nei við þessari tillögu en ég ætla mér að segja já við tillögu sem kemur til atkvæða hér á eftir þar sem við bætum 181 milljón við til Ríkisútvarpsins (Forseti hringir.) og ég beini því til Alþingis að við munum tryggja starfsemi Ríkisútvarpsins til komandi ára.