144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

almannavarnir o.fl.

412. mál
[23:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auknar valdheimildir af þessu tagi í hinum vestræna heimi eru alltaf réttlættar með neyðarástandi, alltaf. Það hefur verið þannig í Bandaríkjunum, það var þannig í Þýskalandi á sínum tíma, það er þannig í Bretlandi, það er þannig í Ástralíu, það er þannig alls staðar. Það er alltaf neyðarástand án undantekninga, að mér vitandi, og það er alltaf þessi togstreita milli réttinda borgaranna og nauðsynlegs yfirvalds sem yfirvöld hafa. Þegar ég ímynda mér þær náttúruhamfarir sem eru hugsanlegar og við vonum auðvitað öll að verði ekki og mestar líkur eru á að verði ekki, eftir því sem ég best veit, þá lítur þetta allt öðruvísi út. Þegar ég hugsa til dæmis um hryðjuverkaógnina sem er umtöluð hérna í vestrinu þá velti ég því fyrir mér hvernig hæstv. innanríkisráðherra mundi taka í það að þetta frumvarp yrði takmarkað við mögulegar afleiðingar af tilteknum mögulegum náttúruhamförum sem vísað væri í. Má takmarka frumvarpið þannig að það eigi ekki við ógn á borð við (Forseti hringir.) hryðjuverkaógn eða ógn af manna völdum vegna þess að þá erum við í raun og veru að tala um allt aðrar aðstæður?