144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

almannavarnir o.fl.

412. mál
[23:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er hugsað sérstaklega gagnvart náttúruhamförum. Ég verð að leyfa mér að segja það við hv. þingheim að ég hef heldur ekki sjálf haft óskaplega langan tíma til að fara yfir allt það sem snertir þetta mál og ég er ekki reiðubúin til að ganga mjög langt í því að lýsa því sem ég mundi gjarnan vilja skoða betur, ég verð bara að segja það, af því að skammt er liðið á mína ráðherratíð. Málið er mjög mikilvægt og það er mjög stórt, ég geri mér grein fyrir því, en ég vil þó að það komi fram að ég er auðvitað afar upptekin af réttindum borgaranna. Og það er alveg augljóst að þegar verið er að grípa til aðgerða sem skerða þau þarf alltaf að fara gætilega og það er líka alveg rétt að neyðarréttur gildir í landinu. Þegar neyðarástand skapast er ákveðið neyðarréttarsjónarmið fyrir hendi sem ég fór yfir í ræðu minni. Þetta er vandmeðfarið, ég geri ekki lítið úr því að þetta er vandmeðfarið.

En engu að síður er það mat manna að ástæða sé til að fastmótaðir ferlar séu fyrir hendi þannig að ef til slíkra náttúruhamfara kemur, sem ég vona að verði aldrei, sé að minnsta kosti eitthvert skipulag á hlutunum.