145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Samninganefnd starfsmanna í álverinu í Straumsvík tók þá ákvörðun að aflýsa verkfalli sem átti að hefjast á miðnætti í gærkvöldi. Kjaradeilan stendur þó eftir óleyst en ákvörðun um að fresta þessu verkfalli var í því samhengi að enginn vilji væri hjá forsvarsmönnum álversins Rio Tinto til samninga. Það hefur komið fram frá samninganefnd álversins að það sé gagnslaust að halda verkfallinu til streitu þar sem ítrekað hafi komið fram hótanir um að álverinu verði lokað. Launakröfur starfsmanna hafa verið á sambærilegum nótum og á almenna vinnumarkaðnum en enn fremur vilja þeir standa vörð um störf sín og koma í veg fyrir frekari útvistun verkefna.

Starfsfólkið er farið að upplifa sig sem leiksoppa í hagsmunatafli Rio Tinto gegn launafólki víðs vegar um heiminn. Það er ekki fögur saga sem fylgir þessu alþjóðafyrirtæki. Alþjóðaauðhringurinn Rio Tinto beitir hér að mínu mati íslenskan vinnumarkað óeðlilegum þrýstingi og veikir verkfallsréttinn. Hvaða kröfur gerir Rio Tinto í framtíðinni fyrst þetta gengur eftir? Getur fyrirtækið beitt sama þrýstingi varðandi raforkuverð gagnvart sköttum og auknum hlut starfsmannaleigna undir þeim hótunum að loka álverinu? Það getur alveg orðið fyrst það komst upp með þetta.

Ég tel að það þurfi að standa vörð um íslenska vinnulöggjöf og verkfallsréttinn og koma í veg fyrir að alþjóðaauðhringir eins og Rio Tinto beiti kúgun og hótunum um lokun fyrirtækja gagnvart starfsfólki þegar það berst fyrir launum sínum og eðlilegum kröfum um bætt kjör og stendur vörð um starfsöryggi sitt. Við megum (Forseti hringir.) ekki sem sjálfstæð þjóð láta slíka alþjóðaauðhringi kúga okkur á Íslandi.


Efnisorð er vísa í ræðuna