146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[15:15]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra. Ég lýsi mig reiðubúinn í þennan slag, að við „pacifistarnir“ tökum þann slag saman ásamt fleirum eins þenkjandi.

Hv. þingmaður ræðir hér um alls konar bútasaum sem alltaf sé farið í þegar kemur að breytingum. Ég held að það sé hárrétt. Það er ágætt að fá það fram að hv. þingmaður er sammála því að breytingin núna sé fyrst og fremst komin til vegna fjölgunar ráðherra, ef ég skil hv. þingmann rétt. Að þetta snúist um að koma fólki í stöður þó að hv. þingmaður sé sáttur við breytinguna sjálfa.

Hér er kallað eftir heildarsýn. Kom hún ekki fram í rannsóknarskýrslu Alþingis? Var þar ekki úttekt á stjórnsýslunni og sérstaklega kallað eftir öflugri ráðuneytum, líka öflugara Alþingi, stærri og öflugri ráðuneytum? Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að ég veit að hún er vel að sér í þeirri skýrslu og hefur barist fyrir mörgum umbótum sem þar er talað fyrir: Er hv. þingmaður ósammála þeirri sýn sem þar birtist um færri, stærri og öflugri ráðuneyti annars vegar, og svo öflugt og sjálfstæðara Alþingi? Eða telur hún að við séum að fara í öfuga átt miðað við það sem þar var lagt til? Ég gat ekki skilið hv. þingmann betur en að hún teldi að skipta þyrfti nefndum og ráðuneytum jafnvel enn frekar upp.