146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

þingsköp Alþingis.

202. mál
[17:15]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Stundum hleypur maður fram úr sjálfum sér. Ég ætlaði rétt aðeins að tjá mig um þetta mál í ljósi þess að vinkað var í okkur Vinstri græn í framsögunni og reyndar kannski í þá sem eldri eru en tvævetur hér á þingi, geri ég ráð fyrir. Mér heyrðist það.

Mér finnst þetta mjög áhugavert. Ég vil líka reyna að bæta vinnubrögðin hér á þingi. Ég tek undir það með framsögumanni að tæplega væri mál sett á dagskrá ef það teldist ekki þingtækt eða stæðist ekki stjórnarskrá eða eitthvað slíkt, en eins og framsögumaður sagði kemur það væntanlega í ljós við þinglega meðferð málsins hvort svo er og hvað þarf að gera, hvort það þarf virkilega að gera stjórnarskrárbreytingu eða eitthvað annað. Ég ætla ekki að fullyrða um það. En það kemur þá líka í ljós.

Hér er rakið hvernig þetta er gert í nágrannalöndum okkar og lagt er til að fara einhverja blandaða leið, eins og við gjarnan gerum í meðförum mála. En mér finnst mjög það sérstakt þegar við köllum til fólk aftur og aftur til þess að fjalla um sömu málin og látum gera fyrir okkur álitsgerðir. Ég hef áhyggjur af því. Það væri kannski áhugavert að senda inn fyrirspurn um þau mál sem flutt hafa verið margendurtekið. Eflaust fer það eftir því hversu heit þau eru í umræðunni hvort umsögnum um þau mál hefur fækkað eða að umsagnaraðilar vísi jafnvel í fyrri umsagnir, jafnvel þó að það líði heilt þing á milli eða eitthvað slíkt. Það væri áhugaverð tölfræði.

Við höfum dæmi um brennivínsfrumvarpið, sem fólk í samfélaginu hefur gríðarlega mikla skoðun á og það kemur alltaf inn haugur af umsögnum um það. Ég er ekkert viss um að þannig sé farið með öll mál. Ég er ekki frá því að það hafi með það að gera, og sérstaklega kannski þingmannamál, að umsagnaraðilar telji ekki ástæðu til þess að veita umsagnir af því málin fari ekki í gegn, þau deyi í nefndum og dagi bara uppi o.s.frv. Ég get alveg fallist á það að það er líka hluti af því sem við eigum að hugsa um, við eigum ekki bara að hugsa um okkur hér innan dyra heldur með hvaða hætti við getum starfað sem best.

Ég er samt ekki alveg frá því að það sé að einhverju leyti rétt að sum mál batna eftir því sem þau fá meiri umfjöllun. Mér finnst það alveg geta átt við stundum, en ég er ekki endilega viss um að það réttlæti það að árum saman séu mál til umfjöllunar án þess að fá einhvers konar afgreiðslu. Ég held að við getum gert betur hérna og við eigum auðvitað að kanna þetta.

Við vorum á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun, ég og hv. framsögumaður, þar sem verið var að fjalla um lagaumgjörðina og hvernig við hefðum staðið að henni. Nú fara að hrúgast inn mál ríkisstjórnarinnar. Þau koma öll inn hér á lokametrunum. Það var einmitt aðeins rætt í nefndinni í morgun hvort við ætluðumst til of mikils á stuttum tíma af hálfu ríkisstjórna, að lögð væri of mikil áhersla á að mörg mál kæmu fram en ekki endilega hvernig mál það væru, hvert innihald þeirra væri o.s.frv. Það er auðvitað ekki eðlilegt að t.d. sama ríkisstjórn endurflytji EES-reglugerðir á milli vor- og haustþinga, sem eru jafnvel búnar að fara í nefnd og fá einhverja umfjöllun. Ég get alveg tekið undir það að við þurfum að finna einhvern flöt á því eins og hér er verið rakið, t.d. að komist mál til nefndar megi þau lifa. Ef þau komast ekki þangað, þ.e. ef ekki næst að mæla fyrir þeim þurfi að byrja upp á nýtt eða eitthvað slíkt. Um leið og við erum komin með málin til nefndar erum við komin með vinnuferli í gang sem krefst þess að fleiri en við komum að því og jafnvel er búið að eyða fleiri tugum klukkutíma í umfjöllun um málefnið. Þá er ekki vel farið með tíma þings og þjóðar.

Svo er það auðvitað spurning hvað við getum gert af því að við höfum heldur ekki afgreitt frumvarpið um þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi þau umdeildu mál sem er verið að endurflytja aftur og aftur, sem þjóðin hefur sterkar skoðanir á og lýsir því með margvíslegum hætti. Ég veit ekki hvort hlutirnir þurfa endilega að haldast í hendur, það getur alveg verið að það þurfi ekki að vera svo. Kannski þurfum við að fara einhverja millileið til þess að þetta virki. Ég tek undir það með framsögumanni að það hefur verið mjög mikil tregða í kerfinu gagnvart þessu, sem er náttúrlega gríðarleg tímasóun, fyrir utan pappírseyðsluna. Ég var að horfa á allan pappírinn í dag og hugsaði um allt það sem dreift hefur verið hér árum saman vegna þess að það er alltaf verið að prenta mál upp aftur og aftur og aftur og mjög mörg óbreytt.

Ég er horfi hér á grein eftir fyrrverandi forseta þingsins, þann sem var hér á síðasta þingi. Greinin er reyndar skrifuð fyrir margt löngu, áður en hann varð forseti. Þar ber hann á móti því að mál séu afgreidd hér í snarhasti. Hann telur svo ekki vera. Hann segir að það sé alla jafna þannig að mál séu vel ígrunduð í nefndum. Það er þannig að mjög mörgu leyti, en það verður ekki svo með þau ríkisstjórnarmál sem koma hér inn á síðasta lagi á föstudaginn, eða jafnvel seinna á undanþágum. Það er ekki svo. Við höfum hálfan mánuð eftir síðasta framlagningardag fram að páskaleyfi. Og þá höfum við einn og hálfan mánuð til viðbótar til þess að afgreiða öll mál ríkisstjórnarinnar og öll önnur mál sem nú þegar eru í farveginum. Þá eiga eftir að koma inn umsagnir og allt slíkt, þannig að tíminn fram að páskum fer í umsagnir um þau mál sem koma inn. Við getum ekki byrjað að tala um þau fyrr en eftir páskaleyfi og þá höfum við einn og hálfan mánuð ásamt öllum öðrum málum. Það eru mjög mörg mál þess eðlis að það er ekki nægur tími fyrir þau. Við þekkjum mismunandi álag í nefndum o.s.frv. Efnahags- og viðskiptanefnd er t.d. með gríðarlega mörg mál inni núna, sem kallar á alls konar gestakomur og töluvert mikla umfjöllun.

Ég held að við eigum að taka þetta til skoðunar og sjá hvort við getum ekki fundið út úr því með hvaða hætti við getum gert þetta til að sníða af þá agnúa sem fólk hefur haft áhyggjur af. Við hljótum að geta fundið flöt á því hér í sameiningu með þeim lögfróðu aðilum sem munu væntanlega gefa þessu máli umsögn, sem eru væntanlega aðilar í stjórnskipunarrétti og fleiri aðilar, sem fá málið til umsagnar.

Ég útiloka ekkert í þessu efni. Ég hef frekar verið hlynnt þessu máli heldur en hitt og hlakka til að sjá umsagnirnar.