149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Við fjöllum hér um veiðigjöld í 3. umr. Fyrir liggur nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar og það hljóðar svo:

Nefndin fjallaði að nýju um málið eftir 2. umr. Á fund nefndarinnar komu Aron Baldursson frá Fiskmarkaði Íslands hf., Daði Hjálmarsson frá KG fiskverkun, Heiðrún Lind Marteinsdóttir og Ægir Páll Friðbertsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Indriði Þorláksson.

Við meðferð málsins kom fram almenn ánægja með breytta aðferðafræði við útreikning veiðigjalds, að það verði byggt á upplýsingum sem eru nær í tíma og að ríkisskattstjóri sé sá aðili sem hafi ríkan aðgang að gögnum og/eða heimildir til að biðja um viðeigandi upplýsingar.

Einnig kom fram fyrir nefndinni að hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja á tilteknum svæðum hefði dregist talsvert saman. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi breytingartillögu sem samþykkt var við 2. umr. um frítekjumark.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins og ritar undir álit þetta með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Undir nefndarálitið rita Lilja Rafney Magnúsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Njáll Trausti Friðbertsson.

Málið hefur fengið ítarlega umfjöllun, eins og komið hefur fram í 2. umr. Haldnir hafa verið 13 fundir í atvinnuveganefnd um málið. Gestir, vel yfir 100, hafa komið og fjöldi umsagna hefur borist, hátt í 50 umsagnir, og málið hefur verið rætt vel og vandlega. Það fór í kynningu hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra sem hélt fundi vítt og breitt um landið. Ég tel að við séum komin á þann stað núna að ekki sé eftir neinu að bíða, enda renna lög um veiðigjöld út um áramótin svo brýnt er að ný lög taki við.

Ég tel að aðferðafræðin við þessi nýju lög sé mjög góð og ég tel ástæðu til að rekja það aðeins í stuttu máli. Í lagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir er lagt til að reiknistofn veiðigjalds hvers árs byggist á afkomu viðkomandi á hverjum nytjastofni. Lagt er til að gjaldhlutfall veiðigjalds á reiknistofni verði 33%, sem er sama gjaldhlutfall og er í gildandi lögum. Lagt er til að veiðigjald verði ákveðið í lok hvers árs fyrir næsta almanaksár í stað þess að vera ákveðið í ágúst fyrir komandi fiskveiðiár. Lagðar eru til breytingar til að einfalda stjórnsýslu veiðigjalds sem felast í því að verkefni veiðigjaldsnefndar verða að mestu færð til embættis ríkisskattstjóra og sömuleiðis verði sérstök þingmannanefnd um veiðigjald lögð niður.

Einnig er í frumvarpinu lagt til að svokallað frítekjumark verði óbreytt, þ.e. kveðið verði á um að hver gjaldskyldur aðili greiði 20% af fyrstu 4,5 millj. kr. og 15% af næstu 4,5 millj. kr. Eins og komið hefur fram, og búið er að samþykkja við 2. umr. breytingartillögu frá meiri hlutanum um, verður frítekjumarkið í frumvarpinu þannig að það verður 40% afsláttur af fyrstu 6 millj. kr. af álögðu veiðigjaldi, sem kemur sér mjög vel fyrir smærri og meðalstór fyrirtæki í sjávarútvegi sem og byggðarlög.

Fram kom hjá þeim gestum sem komu fyrir nefndina milli 2. og 3. umr. að eftir greiningu Deloitte á 61 útgerð í landinu dróst hagnaður saman um 51% milli fiskveiðiáranna 2016/2017, sem þýðir 27 milljarða, en misjafnt var milli svæða hversu mikið hagnaður dróst saman. Til dæmis í Snæfellsbæ dróst hagnaður saman um 89% og 83% í Grindavík. En á þeim svæðum þar sem uppsjávarvinnsla er var minni samdráttur, hagnaður dróst saman þar um 54–62%, þ.e. á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum. Vissulega kemur þar inn í líka sérstakur skattafsláttur sem var felldur niður. Veiðigjöldin, t.d. í Snæfellsbæ, hækkuðu um 300% milli fiskveiðiáranna 2016/2017 og 2017/2018. Í Grindavík hækkuðu þau á þessu tímabili um 215% og Austurlandi um 76%.

Þetta er umhugsunarvert í þeirri umræðu sem hefur verið um málið og ef þingmenn eru á þeirri skoðun að veiðigjöld eigi að vera afkomutengd og við ætlum að ganga inn í breytt fyrirkomulag þar sem ríkisskattstjóri hefur miklar heimildir til að vinna með gögn úr skattskýrslum um afkomu fyrirtækja, þá hljótum við að horfa til þess að hagnaður í sjávarútvegi á Íslandi er mjög sveiflukenndur og veiðigjöldin komi til með að miðast við afkomu sem næst rauntíma hverju sinni. Það tel ég nást í frumvarpinu og að við sem þjóð sem viljum fá eðlilega auðlindarentu af okkar sameiginlegu auðlind getum verið mjög sátt við þá aðferðafræði sem notuð er í þessu frumvarpi til laga um veiðigjöld sem komi til með að vera til framtíðar og að við getum fengið hækkun á veiðigjöldum á milli ára. Við getum fengið lækkun allt eftir því hvernig afkoman sveiflast til. Við erum að taka sérstakt tillit til þessara litlu og meðalstóru útgerða með því að þrýsta frítekjumarkinu og afslættinum neðar sem nýtist þeim langbest.

Í umræðunni hefur milliverðlagning verið til umfjöllunar þar sem verið er að taka úr lögum um veiðigjöld að vinnslan sé þar inni. Fulltrúar frá ríkisskattstjóra sem komu fyrir nefndina telja að lög um milliverðlagningu, þ.e. 57. gr. skattalaga, dugi og að ekki sé þörf á að breyta því að það lagaákvæði um milliverðlagningu, sem nær vissulega til fleiri atvinnugreina en sjávarútvegs, og að ekki væri þörf á að styrkja það ákvæði sérstaklega. En ef það yrði gert, miðað við þá reynslu til framtíðar að þess þurfi, þá yrði það gert í öðrum lögum en þessum lögum hér.

Ég tel mjög mikilvægt að farið verði sem best ofan í þessa hluti af hálfu embættis ríkisskattstjóra og að við höfum upplýsingar frá Fiskistofu um aflaverðmæti hverrar tegundar og upplýsingar um hag greinarinnar sem kemur fram í skattframtali. Annars tel ég að ekki þurfi að hafa fleiri orð um málið, búið er að ræða það vel og lengi, bæði utan þings og innan, í nefndinni og hér í þingsal við 1. og 2. umr. Ég legg til að málið fái afgreiðslu sem fyrst. Það er brýnt vegna þess að lög um veiðigjöld renna út um áramótin og framvegis verður miðað við almanaksárið en ekki eins og verið hefur frá 1. september til 31. ágúst hvert ár.

Ég lýk máli mínu í bili og tel að við séum búin að ná vel utan um þetta umdeilda mál sem hefur verið mjög lengi í umræðu í þjóðfélaginu og að sátt eigi að geta náðst um þessa aðferðafræði sem mér finnst vera kjarninn í þessu þegar upp er staðið.