150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[13:45]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Út af þeim orðum sem hér hafa fallið er rétt að benda á hið augljósa í þessari stöðu. Þessi fjáraukalög eru 1,6% af útgjöldum ríkissjóðs. Ef við bætum síðan við varasjóðum, bæði almennum varasjóði og til viðbótar sérstökum varasjóðum, dettum við í gamalkunnugt mynstur þar sem framúrkeyrslan er af stærðargráðunni 3–5%. Við höfum reyndar ekki fengið uppgjörið á varasjóðunum enn þá, fáum sjaldnast að sjá almennilega ofan í ráðstöfun þeirra, en það er einfaldlega hin sögulega framúrkeyrsla sem var verið að reyna að taka á með lögum um opinber fjármál. Það er framúrkeyrslan sem Sjálfstæðisflokkurinn var gjarnan fastur í á ríkisstjórnarárunum 2013–2016 og nú erum við aftur að falla í það gamla far, því miður.

Ástæðan fyrir þessari framúrkeyrslu er bara fyrirhyggjuleysi þessarar ríkisstjórnar. Hún var ítrekað vöruð við því að efnahagsforsendur sem hún vann út frá einkenndust af allt of mikilli bjartsýni. Það var ekki gert ráð fyrir því, það er ekki ábyrg fjármálastjórn heldur fullkomið fyrirhyggjuleysi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)