150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[14:43]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum landbúnaðarmál og innflutning. Sérstök hlið á þeim málum er loftslagsmálin og kolefnissporin sem ég hef alltaf upplifað ansi fjarri orðanotkun Viðreisnar í þessum umræðum. Ég man ekki mikið eftir þeirri umræðu. Nú er það skylda okkar að setja upp einhvers konar matvælastefnu sem hefur áherslu á nærsamfélagið og framleiðslu á innlendum vörum, meiri fjölbreytni og öðru slíku, matvælaöryggi, sjálfbærni og lágu kolefnisspori. Þá velti ég fyrir mér hvernig þetta rími við sem opnastan innflutning. Er ekki vafi á gagnsemi hans á okkar tímum? Ég velti fyrir mér hvort verndarstefna, þó takmörkuð, sem einhvern veginn ívilnar innlendri framleiðslu og minnkar innflutning geti verið skaðleg. Það er sagt að landbúnaðarstefna og innflutningsstefnan eigi að henta nútímanum. Hvert er þá aðalvandamál nútímans? Eru það ekki loftslagsbreytingar?

Ég fæ þetta óskaplega frelsi ekki til þess að ríma vel við loftslagsmál nútímans og spyr hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur: Mynda loftslagsbreytingar engar hömlur á innflutning landbúnaðarvara? En ef svo er, hvaða hömlur eru það?