150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög.

433. mál
[15:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, með síðari breytingum (endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar). Ég stikla á stóru en nefndin fékk auðvitað til sín fjölda gesta til að fjalla um þetta mál.

Meginmarkmiðið með frumvarpinu er að framfylgja samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar, sem var undirritað 25. október 2019, sem fela í sér að fallið verði frá niðurfellingu heildargreiðslumarks.

Fyrir nefndinni kom fram almenn ánægja með frumvarpið. Var bent á að kúabændur hefðu samþykkt samkomulagið með 76% greiddra atkvæða. Enn fremur hafi verið samþykkt meðal bænda með 89% atkvæða að halda kvótakerfinu í mjólkurframleiðslu og breytingin sé því að beiðni kúabænda sjálfra. Var nefndinni bent á að í fleiri löndum væri stjórnun mjólkurmarkaðar með greiðslumarki og að til stæði að koma hér á svokölluðum jafnvægisverðsmarkaði. Var bent á að skipa eigi starfshóp sem fari yfir verðlagningu á mjólk og mjólkurvörum. Nefndinni var jafnframt bent á að ráðherra verði heimilt að setja hámarksverð á greiðslumark verði verðþróun á markaði óeðlileg. Þetta muni auka fyrirsjáanleika og hjálpa bændum, t.d. í rekstraráætlanagerð.

Meiri hluti nefndarinnar bendir á að niðurstöður atkvæðagreiðslna meðal bænda bendi eindregið til þess að kvótakerfi í mjólkurframleiðslu sé það fyrirkomulag sem henti greininni. Bendir nefndin enn fremur á að unnið sé að aðgerðum sem auki, eins og ég nefndi, fyrirsjáanleika fyrir bændur í rekstri þeirra. Meiri hluti nefndarinnar leggur sem sagt til að þetta frumvarp verði samþykkt með breytingu sem snýr að fyrirsögn frumvarpsins, að hún orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum (greiðslumark mjólkur).

Undir þetta nefndarálit skrifa sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Sigurður Páll Jónsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Þorgrímur Sigmundsson.

Ég tel mjög mikilvægt að við séum að klára hér að afgreiða það samkomulag sem gert var við kúabændur. Við þekkjum að það hafa verið miklir erfiðleikar, sérstaklega hjá ungum bændum og þeim sem hafa fjárfest í nýtískubúnaði í mjólkurbúskap sínum. Markaðurinn hefur verið algjörlega frosinn og menn hafa ekki getað keypt sér aukinn mjólkurkvóta til að standa undir aukinni fjárfestingu. Ég tel að þegar svona samningur liggur fyrir við greinina af hálfu ríkisins auki það möguleika hjá bændum að geta fengið lánafyrirgreiðslu þegar þessi fyrirsjáanleiki er til staðar og styður við uppbyggingu og áframhaldandi nýliðun í greininni og uppbyggingu í rekstri þeirra í nýjum búnaði og þeirri tækni sem er búin að ryðja sér til rúms í þessum geira.