150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög.

433. mál
[15:46]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993. Meginmarkmiðið með frumvarpinu er að framfylgja samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar sem var undirritað 25. október 2019, samkomulagi sem felur í sér að fallið verði frá niðurfellingu heildargreiðslumarks. Fyrir nefndinni kom fram almenn ánægja með frumvarpið og var bent á að kúabændur hefðu samþykkt samkomulagið með 76% greiddra atkvæða. Enn fremur hefur verið samþykkt meðal kúabænda með 89% atkvæða að halda kvótakerfinu í mjólkurframleiðslu. Breytingin er því að beiðni bændanna sjálfra. Var nefndinni bent á að í fleiri löndum væri stjórnun mjólkurmarkaðar með greiðslumarki og að til stæði að koma hér á jafnvægisverðsmarkaði. Skipa á starfshóp sem fari yfir verðlagningu á mjólk og mjólkurvörum. Nefndinni var jafnframt bent á að ráðherra verði heimilt að setja hámarksverð á greiðslumark verði verðþróun á markaði óeðlileg. Þetta mun auka fyrirsjáanleika og hjálpa bændum, t.d. í rekstraráætlanagerð.

Ég tel að niðurstöður atkvæðagreiðslu meðal kúabænda bendi eindregið til þess að kvótakerfið í mjólkurframleiðslu sé það fyrirkomulag sem henti greininni. Eins og fram kemur í nefndaráliti er unnið að aðgerðum sem auka fyrirsjáanleika og eru fallnar til að auðvelda bændum rekstur þeirra.

Ég er ánægður, herra forseti, með að fá tækifæri hér til að styðja þetta góða mál.